Þursaflokkurinn (1977-84)

þursar

Þursaflokkurinn

Upphaf Þursaflokksins má rekja til haustsins 1977 en þá hafði Egill Ólafsson verið í Spilverki þjóðanna við góðan orðstír. Egill kallaði saman þá Þórð Árnason gítarleikara og Tómas M. Tómasson bassaleikara (sem báðir höfðu komið lítillega við sögu Stuðmanna með Agli), auk Ásgeirs Óskarssonar trommuleikara og Rúnars Vilbergssonar fagottleikara (BG og Ingibjörg o.fl.) og fóru þeir félagar að gera tilraunir með íslensk þjóðlög leikin á rafmagnshljóðfæri.

Svo fór að Egill hætti í Spilverkinu um áramótin 1977/78 til að einbeita sér að þessu verkefni og fljótlega fór sveitin að bera þessa tónlist á borð almennings á tónleikum og kallaði sig þá Þursaflokkinn. Meðlimir Þursanna voru reyndar allir uppteknir í öðrum hljómsveitum og segir sagan að Ásgeir hafi sérstaklega verið upptekinn enda þurfti hann iðulega að hlaupa á milli með að minnsta kosti hluta úr trommusetti sínu, t.d. hefði hann komið og spilað á tónleikum með Þursunum á meðan hann var í pásu í einhverri annarri sveitinni – svo hálftíma síðar hefði hann hlaupið á þá tónleika aftur.

Fyrsta plata sveitarinnar var tekin upp síðsumars 1978 og innihélt hún að miklu leyti íslensk þjóðlög (flest líklega frá 19. öld) úr bók sr. Bjarna Þorsteinssonar (bókin hét Íslensk þjóðlög og kom upphaflega út 1906) við útsetningar þeirra félaga og mátti skilgreina tónlistina sem eins konar framsækið þjóðlagarokk, einhver laganna voru reyndar eftir Egil. Tónlistinni var gjarnan líkt við það sem Fairport Convention og Steeleye Span voru að gera.

Platan kom út haustið 1978 á vegum Fálkans og hlaut titilinn Hinn íslenzki þursaflokkur, Guðjón Ketilsson hannaði umslag hennar en það vakti nokkra athygli, Hemmi túkall (Hermann Vilhjálmsson) var þar í hlutverki fyrirsætu. Á umslaginu má ennfremur sjá sögu hvers lags í léttum dúr, auk textans. James Kay annaðist hljóðupptöku en Ralph Moss hljóðblöndun, upptökur fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði.

Þursaflokkurinn3

Hinn íslenski þursaflokkur

Platan hlaut ágætar viðtökur og seldist nokkuð vel (í dag í ríflega tíu þúsund eintökum) enda fannst fólki Þursaflokkurinn vera að gera áhugaverða hluti með menningararfinn. Jens Guðmundsson gaf henni t.d. frábæra dóma í Poppbók sinni sem kom út 1983. Lögin Nútíminn, Einsetumaður einu sinni og Stóðum tvö í túni náðu hvað mestum vinsældum af plötunni.

Um svipað leyti og þessi fyrsta plata var að koma út gekk orgelleikarinn Karl Sighvatsson til liðs við sveitina. Þannig skipuð hóf sveitin að vinna sína aðra plötu um vorið 1979 en Jónas R. Jónsson var þar við upptökutakkana ásamt Gunnari Smára Helgasyni, í Hljóðrita.

Þessi önnur plata sem fékk nafnið Þursabit var eins og sú fyrsta að mestu byggð á þjóðlögum og -kvæðum úr fórum sr. Bjarna en eins og áður áttu þeir Þursar einnig lög á plötunni. Platan hlaut góðar viðtökur eins og sú fyrsta og fékk hún t.d. frábæra dóma eins og sú fyrsta í bók Jens Guðmundssonar, Poppbókinni. Lögin Sigtryggur vann og Brúðkaupsvísur urðu vinsælust laga á plötunni.

Í kjölfar útgáfu Þursabits fór sveitin í tónleikaferðir um landið, að einhverju leyti með Íslenska dansflokknum og svo í framhaldinu túraði hún um Skandinavíu og Holland en sú ferð tók um fjóra mánuði og var gerður mjög góður rómur að Þursaflokknum. Lárus Grímsson leysti Karl orgelleikara af í þeirri ferð. Plöturnar tvær voru síðan gefnar út í Danmörku og vöktu þar mikla athygli, Þursabit (Hekseskud) var m.a. kjörin ein af plötum áratugarins hjá MM í Danmörku en í ferðinni gekk sveitin undir nafninu Jættegruppen.

Næsta vor (1980) hélt Þursaflokkurinn tónleika í Þjóðleikhúsinu þar sem öllu var til tjaldað, Lúðrasveit verkalýðsins tók á móti gestum á tröppum leikhússins og innan dyra lék Þursaflokkurinn en tónleikarnir voru hljóðritaðir af félögunum Jónasi R. Jónssyni, Gunnari Smára Helgasyni og Baldri Má Arngrímssyni, hljóðblandaðir af Björgvini Gíslasyni og síðan gefnir út sama ár.

Þursaflokkurinn

Þursar á ferð

Á þessum tónleikum léku Þursarnir m.a. lagið Jón var kræfur karl og hraustur en það lag hafði verið samið baksviðs á tónleikum í Vík í Mýrdal þar sem fámenni ölvaðra tónleikagesta hafði heimtað eitthvað hressilegt, að sögn Egils og Tómasar í Lesbókarviðtali löngu síðar. Ljóðið var eftir Jónas Árnason og hafði komið út með honum og Leikhúskvartettnum árið 1965 en þá við enskt lag, en þarna sneru þeir félagar ljóðinu upp á eigið lag og skutu inn sem millikafla ljóði eftir sr. Árilíus Níelsson. Þetta lag, sungið af Tómasi bassaleikara, var í takti við pönkið sem þá var að hefja innreið sína á Íslandi og er eins og réttilega hefur verið bent á, fyrsta íslenska pönklagið fyrir utan Paradísarfugl Megasar (1977). Þessi nálgun Þursanna á pönkið á vafalaust sinn þátt í að pönkararnir báru virðingu fyrir sveitinni og að þeim var síðar boðið að koma fram í kvikmyndunum Okkar á milli og Rokk í Reykjavík. Lagið er þó eðlilega á skjön við annað sem flutt var á þessum eftirminnilegu tónleikum.

Platan hlaut góðar viðtökur eins og fyrri plöturnar tvær og fékk eins og þær frábæra dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, aukinheldur mjög góða í Morgunblaðinu. Platan varð auk þess í þriðja sæti í uppgjöri blaðsins um bestu plötur ársins.

Starfsemi sveitarinnar lá að einhverju leyti niðri eftir útgáfu þessarar plötu (að minnsta kosti hvað tónleika varðaði) enda höfðu Þursarnir spilað mikið á tónleikum og voru að auki önnum kafnir við ýmis hliðarverkefni, þeir unnu þó eitthvað við kvikmynda- og heimildamyndatónlist, t.d. kom sveitin fram í kvikmyndinni Okkar á milli í hita og þunga dagsins (1981) í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar en tónlistin úr myndinni kom út á samnefndri plötu. Aukinheldur vann sveitin að tónlist fyrir söngleikinn Gretti sem sett var á svið í Austurbæjarbíói haustið 1980. Egill Ólafsson samdi verkið ásamt þeim Þórarni Eldjárn og Ólafi Hauki Símonarsyni.

Um þetta leyti hættu Rúnar og Karl í Þursaflokknum og í kjölfarið lagðist sveitin í hálfgerðan dvala, menn hafa skipt sögu Þursaflokksins í tvo hluta og lýkur hér þeim fyrri.

Síðsumars 1981 var kraftur settur í sveitina á nýjan leik og gekk þá Júlíus Agnarsson til liðs við sveitina, þeir Þursar settu á fót eigið hljóðver sem bar heitið Grettisgat og hófu upptökur þar í ársbyrjun 1982 en þeir Júlíus og Tómas önnuðust þann þátt í þetta skiptið.

Þennan vetur tók sveitin einnig upp efni sem rataði í heimildamyndina Rokk í Reykjavík en þar átti sveitin eitt lag við ljóð Einars Más Guðmundssonar, þar var sveitin aðeins skipuð fjórmenningunum Agli, Þórði, Tómasi og Ásgeiri.

Þursar héldu áfram upptökum á breiðskífunni sinni og hún kom síðan út um vorið undir nafninu Gæti eins verið og var að því leyti frábrugðin hinum þremur að öll lögin voru frumsamin en ekki gömul íslensk þjóðlög, sveitin hafði ennfremur tekið hljóðfæri eins og hljómborð meira inn í tónlistina. Það breytti engu um vinsældir sveitarinnar og hún hlaut góðar viðtökur eins og hinar fyrri, ágæta dóma í tímaritinu Samúel og eins og fyrr frábæra dóma í Poppbókinni. Lögin Pínulítill karl, Gegnum holt og hæðir (sem var einnig í söngleiknum Gretti undir titlinum Söngur Gullauga) og Vill einhver elska nutu hvað mestra vinsælda á þessari plötu og hafa lifað hvað lengst.

Um það leyti sem Gæti eins verið var að koma út voru Stuðmenn (sem innihélt þá orðið Tómas, Egil, Þórð og Ásgeir) endurvaktir og voru farnir að vinna að kvikmyndinni Með allt á hreinu, eðlilega fór því lítið fyrir starfsemi Þursaflokksins og svo fór að lokum að hún lá alveg niðri þrátt fyrir að þeir Egill og Tómas ynnu eitthvað að fjórðu hljóðversplötu sveitarinnar. Sveitin lék á sínum síðustu tónleikum 1984 en hætti þó í raun aldrei.

Meðlimir hennar spiluðu ekkert saman fyrr en 1991 þegar minningartónleikar voru haldnir um Karl Sighvatsson sem þá hafði nýverið látist í hörmulegu bílslysi, þeir tónleikar voru gefnir út undir titlinum Minningartónleikar um Karl Sighvatsson. Einnig kom sveitin saman í kringum tónlistarhátíðina Reykjavik Music Festival sumarið 2000 en fengu þar ekki góðar viðtökur áhorfenda sem fannst þeir sviknir með efni af þá óútgefinni plötu Egils Ólafssonar, Nýjum engli en ekki Þursatónlist.

Þursaflokkurinn á tónleikum

Þursaflokkurinn á tónleikum

Frekara tónleikahald var ekki í bili en safnplatan Nútíminn: Bestu lög Þursaflokksins kom út sama ár. Þá var einnig heilmikið rætt um hvort fullvinna ætti óútgefnu plötuna sem unnið var að 1982, það var þó ekki gert fyrr en snemma 2008 þegar Þursaflokkurinn kom saman á nýjan leik og hélt tónleika ásamt Caput hópnum í Laugardalshöll í tilefni af þrjátíu ára afmælis sveitarinnar.

Við það tækifæri kom út fimm platna kassi með öllum breiðskífum sveitarinnar og aukaplötu með áður óútgefnu efni. Á þeirri plötu var m.a. að finna efni af hálfkláruðu plötunni, auk tónleikaupptakna. Þessi kassi fékk fullt hús í Fréttablaðinu en Morgunblaðið og 24 stundir voru hógværari í sínum umsögnum.

Tónleikarnir ásamt Caput hópnum voru teknir upp og gefnir út um haustið 2008 ásamt myndefni (á dvd) og hlaut platan, sem fékk nafnið Hinn íslenski Þursaflokkur og Caput í Höllinni á þorra 2008, frábæra dóma í Fréttablaðinu og mjög góða í Morgunblaðinu og tímaritinu Monitor.

Þótt sveitin sé tæknilega löngu hætt störfum hefur hún á síðustu árum komið saman og skemmt landanum með tónleikahaldi, líklega fær þjóðin því að njóta þeirra enn um stund.

Efni á plötum