Andlát – Tómas M. Tómasson (1954-2018)

Tómas í Stuðmanna myndinni Með allt á hreinu

Tómas Magnús Tómasson (Tommi Tomm) tónlistarmaður er látinn, á sextugasta og fjórða aldursári.

Tómas fæddist í Reykjavík 23. maí 1954 og hóf þegar á unglingsaldri að leika á gítar og bassa með hljómsveitum á meðan hann var við nám í Vogaskóla, fyrst með Fónum um miðjan sjötta áratuginn og síðan Amor (1965-69), í síðarnefndu sveitinni var Tómas einnig söngvari.

Á árunum 1969 og 70 lék hann með Arfa og Mods og var þá þegar farinn að vekja athygli sem einn af bestu bassaleikurum landsins en það var svo með progsveitinni Rifsberju sem hjólin fóru að snúast fyrir alvöru, sú sveit starfaði 1971-73, á þessum árum kom hann einnig lítillega við sögu Náttúru.

Að loknu Rifsberju-ævintýrinu fór Tómas ásamt félögum sínum úr sveitinnii til Bretlands vorið 1973 til að freista gæfunnar sem tónlistarmaður og starfaði þar næstu árin, bæði með þarlendum sveitum en einnig með hljómsveitinni Change (1975-76) sem þá hafði verið að reyna fyrir sér í Bretlandi. Á þessum árum kom hann að Vísnaplötunum svokölluðu (Einu sinni var / Út um græna grundu) sem hann vann ásamt Björgvini Halldórssyni og Gunnari Þórðarsyni, og tók þátt í upptökum á plötunni Sumar á Sýrlandi sem síðar átti eftir að verða að Stuðmönnum. Tómas starfaði þó ekki alveg samfleytt í Bretlandi og lék t.a.m. með hljómsveitinni Iceband sem starfaði um skamman tíma 1975-76.

Tómas 1981

Þegar Tómas kom aftur heim til Íslands má segja að sól hans hafi risið hvað hæst, Stuðmanna-ævintýrið var þá að hefjast og í þeirri sveit var hann allt fram á okkar dag en einnig með Þursaflokknum sem einnig naut fádæma vinsælda á meðan hún starfaði (1977-84), sú sveit hefur reyndar margsinnis verið endurvakin. Tómas fór víða um lönd með Þursaflokknum og Stuðmönnum, og tók m.a. þátt í Kína ferðalagi Stuðmanna (undir nafninu Strax).

Á seinni árum lék Tómas með nokkrum sveitum sem minna bar á, þeirra á meðal má nefna Sirkus Homma Homm, Bítladrengina blíðu og Gæðablóð.

Tómas varð samhliða spilamennskunni virtur upptökumaður og -stjóri og kom að ógrynni platna, þær skipta sjálfsagt hundruðum og eru þeir án efa fáir ef nokkrir einstaklingar sem komið hafa að jafnmörgum útgefnum plötum hér á landi. Auk þess lék hann á bassa og fleiri hljóðfæri inn á margar þeirra. Meðal tónlistarmanna og hljómsveita sem Tómas starfaði með eru hér aðeins nefnd nokkur þekkt nöfn; Bubbi Morthens, Halli og Laddi, Baraflokkurinn, Örvar Kristjánsson, Bítlavinafélagið, Egill Ólafsson, Björgvin Halldórsson, KK-band, Margrét Eir, Greifarnir, Sverrir Stormsker, SSSól, Bjartmar Guðlaugsson, Magnús Þór Sigmundsson, Björk, Stella Hauks, Egó, Fræbbblarnir, Silfurkórinn og Megas.

Tómas var kunnur húmoristi og margir muna eftir útgáfu Þursaflokksins á laginu Jón var kræfur karl og hraustur en Tómas söng það eftirminnilega á tónleikum sveitarinnar sem gefnir voru út á plötunni Þursaflokkurinn á hljómleikum (1980), það lag hefur ásamt Paradísafugli Megasar verið nefnt sem fyrsta íslenska pönklagið. Þá var Tómas lunkinn sagnamaður og eftir hann liggur bókin Sögur Tómasar frænda (2005).