Opus [1] (1972-76 / 1982-83)

opus 19721

Opus 1972

Hljómsveitin Opus var að nokkru leyti skyld annarri sveit, Opus 4 sem hafði starfað örfáum árum áður en hún hafði á að skipa sömu meðlimum að hluta, þeim Hirti Blöndal og Sævari Árnasyni.

Opus var stofnuð 1972 og var nokkuð áberandi í fjölmiðlum þá um haustið þar sem hún lék á böllum sem tengdust Fegurðarsamkeppni Íslands og haldin voru í sýslum landsins. Reyndar var keppnin í höndum áðurnefnds Hjartar Blöndal og Einars D. Einarssonar sem höfðu keypt réttinn á fegurðarsamkeppninni en báðir voru þeir í Opus, þeir héldu nokkrar undankeppnir úti á landi þar sem þeir sjálfir skipuðu dómnefndina og hugmyndin var að sigurvegarar þeirra keppna myndu keppa í lokakeppni sem fram færi í Reykjavík í lokin. Aldrei var þó úrslitakeppnin haldin og svo fór að þeir misstu réttinn til að halda keppnina. Skýring þeirra á því hvers vegna úrslitakeppnin var ekki haldin, var að fegurðardrottningarnar úti á landi hefðu bara ekki verið nógu fallegar, böllin sköpuðu þó sveitinni nokkrar tekjur.

Aðrir meðlimir sveitarinnar auk Hjartar og Einars voru áðurnefndur Sævar Árnason, Matthías Már Kristiansen gítarleikari og Gunnar Gunnarsson trommuleikari.

Árið eftir, 1973 var Mjöll Hólm gengin til liðs við Opus og upp frá því lék sveitin mestmegnis á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins. Hjörtur hætti í hljómsveitinni um áramótin 1973-74 af því er virðist til að einbeita sér að hljóðveri sem hann var þá að setja á laggirnar, Finnbogi Gunnlaugsson bassaleikari var þá kominn í sveitina en ekki liggur fyrir hvort hann tók við af Hirti eða hvort hann hafi jafnvel verið í sveitinni fram að því.

Opus 19741

Opus 1974

Opus tók upp tveggja laga plötu í hljóðveri Hjartar (HB stúdíó) og um sumarið 1974 kom hún út, platan hlaut litla athygli og gagnrýnendur Alþýðublaðsins og Vísis voru ekki hrifnir af henni, mest var þó talað þar um lélegt sánd.

Áfram starfaði sveitin þar til í febrúar 1976 en hún virðist þá hafa hætt störfum, að minnsta kosti er hennar ekki getið í fjölmiðlum eftir það.

Opus var þó ekki alveg endanlega hætt því sumarið 1982, eftir sex ára hlé, birtist hún aftur á Hótel Sögu og leysti af Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar sem var í fríi um sumarið þar sem söngvarinn, Ragnar Bjarnason var á fullu með Sumargleðinni í hringferð um landi. Sagan endurtók sig sumarið 1983 en eftir það virðist sem sögu Opusar sé loks endanlega lokið.

Þetta síðasta starfstímabil sveitarinnar voru meðlimir hennar auk Mjallar söngkonu, Júlíus Jónsson bassaleikari og söngvari, Sævar Árnason gítarleikari, Ásgeir Guðjónsson hljómborðsleikari og Karl Petersen trommuleikari. Þórarinn Gíslason tók við hljómborðinu af Ásgeiri síðara árið.

Efni á plötum