
Opus dei 1994
Opus dei úr Reykjavík er ein af hundruðum hljómsveita sem keppt hafa í Músíktilraunum, tvívegis reyndar.
Sveitin spilaði hefðbundið rokk og var starfandi að því er best er vitað í tvö ár (1993-94) og keppti bæði árin í Músíktilraunum Tónabæjar.
Fyrra árið voru meðlimir sveitarinnar þeir, Arnar Bjarki Árnason bassaleikari, Óttar Rolfsson söngvari, Einar Einarsson gítarleikari og Hreiðar Smári Grétarsson trommuleikari. Meðlimir voru á aldrinum 14-15 ára. Sveitin fór í úrslit keppninnar en hafði þar ekki erindi sem erfiði.
Ári síðar keppti sveitin aftur og þá hafði Gylfi Blöndal bassaleikari (Kimono Bloodshed o.fl.) komið í stað Arnars Bjarka, að öðru leyti var skipan sveitarinnar sú sama. Aftur komst hún í úrslit en vann ekki til verðlauna.
Opus dei lék eitthvað opinberlega fram eftir sumri 1994 en síðan virðist hún hafa lognast útaf.