Rauðhetta [tónlistarviðburður] (1976-78)

Rauðhetta 761

Merki Rauðhettuhátíðarinnar

Útihátíðin Rauðhetta var haldin þrívegis við Úlfljótsvatn á sínum tíma, þar léku vinsælustu hljómsveitir landsins fyrir unglinga á aldrinum 12-20 ára. Að nafninu til var um bindindishátíð að ræða á vegum skátanna og gefið var út fyrir fyrstu hátíðina sem haldin var um verslunarmannahelgina 1976, að um væri að ræða skemmtun án áfengis. Lítið var þó um eftirfylgni og ekki var leitað að áfengi á ungum gestum hátíðarinnar, sem margir skemmtu sér dauðadrukknir.

Á fyrstu hátíðinni, Rauðhettu ´76 mættu um sex þúsund manns og varð það fjölmennasta samkoman af þeim þremur sem haldnar voru. Hljómsveitir á borð við Paradís, Randver og Cabaret voru með þeirra sem skemmtu en einnig voru annars konar fjölbreytileg skemmtiatriði, allt frá gríni Halla og Ladda til eftirherma.

Næsta hátíð, Rauðhetta ´77 var öllu fámennari, þá mættu um fjögur til fimm þúsund manns og hljómsveitir eins og Eik, Póker og Tívolí sáu um að trylla lýðinn.

Þrátt fyrir að teikn væru á lofti um að fáir myndu mæta á þriðju Rauðhettu hátíðina var hún samt sem áður haldin um verslunarmannahelgina 1978. Á Rauðhettu ´78 mættu aðeins á milli tvö og þrjú þúsund gestir og að henni lokinni var því lýst yfir að hún yrði ekki haldin aftur. Brunaliðið, Mannakorn, Þursaflokkurinn og Megas voru meðal skemmtiatriða á þessari síðustu Rauðhettu hátíð.