Röðull [tónlistartengdur staður] (1944-76)

Röðull[tónlistartengdur staður]

Röðull á horni Skipholts og Nóatúns

Skemmti- og veitingastaðurinn Röðull var um árabil einn sá vinsælasti sinnar tegundar á landinu.

Röðull var opnaður á gamlárskvöld 1944 þegar áramótadansleikur knattspyrnufélagsins Fram var haldinn þar. Staðurinn var að Laugavegi 89 (gegnt Stjörnubíói) og var í fyrstu í eigu Erlends Erlendssonar en staðurinn átti eftir að skipta allmörgum sinnum um eigendur áður en yfir lauk.

Í upphafi gat staðurinn tekið á móti allt að þrjú hundruð manns en um var að ræða tvær hæðir og kjallara. Röðull gekk einnig í gegnum breytingar nokkrum sinnum, t.d. gagngerar endurbreytingar vorið 1954.

Haustið 1957 var staðnum lokað þegar nýr aðili eignaðist húsakynnin á Laugaveginum en starfsemi Röðuls lá þá niðri í um eitt ár þar til hann opnaði aftur á nýjum stað, á horni Skipholts og Nóatúns (þar sem Radíóbúðin og Ruby Tuesday voru síðar). Þá urðu ákveðin þáttaskil sumarið 1959 þegar Helga Marteinsdóttir veitingakona (hafði áður m.a. rekið Vetrargarðinn í Tívolí) leigði reksturinn, hún keypti staðinn nokkrum árum síðar ásamt tengdasyni sínum og rak hann um árabil, yfirleitt var opið sex kvöld vikunnar. Helga vann sjálf hörðum höndum á staðnum íklædd peysufötum, jafnt í miðasölu sem í sal þótt hún væri komin á áttræðisaldur. Hljómsveitir og tónlistarmenn, íslenskir sem erlendir skemmtu á Röðli og auk þess að vera frægur fyrir Helgu á peysufötunum starfaði þar glímukóngurinn Sigtryggur dyravörður Sigurðsson, hann varð svo frægur að hljómsveit var skírð í höfuðið á honum og notaði Þursaflokkurinn sér einnig nafn hans í frægu lagi, Sigtryggur vann.

Síðari staðsetning Röðuls við Skipholt var alla tíð nokkuð umdeild vegna hávaðamengunar en um er að ræða íbúðahverfi, ekki bætti úr skák að fleiri slíkir staðir voru í næsta nágrenni.

Röðull var í flokki vinsælustu skemmtistaða bæjarins og var opinn þar til í árslok 1976 en þá opnaði Radíóbúðin í húsnæðinu, margir urðu til að gráta lokun staðarins og var m.a. stofnaður félagsskapur árið 1990, Röðulssamtökin, þar sem fyrrum Röðulsgestir hittust og minntust gömlu og góðu daganna. Sá félagsskapur er líkast til enn starfandi.