Djellý systur (1982-86)

Jelly systur 1983

Jelly systur árið 1983

Kvennahljómsveitin Djellý systur úr Kópavoginum starfaði á árunum 1982-86, í kjölfar vinsælda Grýlnanna sem þá voru á toppi ferils síns.

Djellý systur (einnig ritað Jelly systur) voru stofnaðar í Kvennaskólanum í Reykjavík og komu fyrst fram sem skemmmtiatriði á uppákomu í skólanum vorið 1982. Upphaflegir meðlimir hljómsveitarinnar voru þær Ragna Gunnarsdóttir hljómborðsleikari, Elísabet Sveinsdóttir trommuleikari, Sigurbjörg Níelsdóttir bassaleikari, Edda Kristín Reynis söngkona og Íris Kristjánsdóttir gítarleikari.

Vorið 1983 hætti Íris í sveitinni og tók Steinunn Baldursdóttir við gítarnum, Ragna hljómborðsleikari hætti stuttu síðar og tók Nína María Morávek við af henni. Elísabet trommuleikari hætti haustið 1983 og þegar auglýst var eftir trommuleikara var Júlía Hannam leikkona valin og trommaði með sveitinni þar til hún varð ófrísk og var reyndar komin átta mánuði á leið þegar hún lék á síðasta ballinu sínu, Katrín Jónsdóttir tók við trommarahlutverkinu í kjölfarið.

Djellý systur spiluðu að miklu leyti frumsamið efni en Sigurbjörg og Steinunn voru aðal laga- og textahöfundar sveitarinnar. Um haustið 1983 tóku þær þátt í Músíktilraunum en höfðu þar ekki erindi sem erfiði, komust ekki í úrslit. Sumarið 1984 fór sveitin í samstarf með hljómsveitinni Landshornaflökkurum og ferðuðust sveitirnar tvær um landið og héldu böll undir yfirskriftinni Rokkgengið. Í því samhengi fóru þær Djellý systur í hljóðver og tóku upp efni sem kom reyndar aldrei út.

Í lok sumar 1984 hættu Sigurbjörg bassaleikari og Katrín trommuleikari í sveitinni en Edda Kristín og Steinunn störfuðu tvær undir þessu nafni allt til ársins 1986.