Akkord [útgáfufyrirtæki / félagsskapur] (1975-95)

engin mynd tiltækAkkord nafnið var í eigu Karls Jónatanssonar harmonikkuleikara og tengdist tónlist (einkum harmonikkutónlist) með margs konar hætti. Í upphafi var um að ræða útgáfufyrirtæki sem sérhæfði sig í útgáfum nótna, ekki er þó ljóst hversu umfangsmikil sú útgáfa var en það var um miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Fljótlega birtist Akkord einnig sem plötuútgáfa þegar tvær plötur komu út 1976, Harmonikan hljómar og lítil endurútgefin plata með Kvintett Karls Jónatanssonar. Þá var sonur Karls, Jónatan viðloðandi útgáfuna og gæti svo sem hafa verið það áður líka. Fleiri plötur komu út á vegum útgáfunnar þótt ekki yrðu þær margar, en líklega bar hljóðver í eigu þeirra feðga einnig þetta sama nafn.

Lítið spurðist til Akkords næstu árin en næsta birtingarform þess var tónlistarklúbbur, harmonikkuklúbbur sem hélt utan um tónlistarhátíð sem bar yfirskriftina Hátíð harmoníkunar og var haldin á skemmtistaðnum Broadway.

Síðar (1995) var nafnið tengt Almenna músíkskólanum sem Karl hafði starfrækt í áratugi en Akkord nafnið hvarf smám saman, Almenni músíkskólinn var hins vegar starfandi til 2004 að minnsta kosti.

Fyrirtækið og félagsskapurinn Akkord kom því víða við undir stjórn Karl Jónatanssonar.