Alþýðukórinn (1950-67)

Alþýðukórinn

Alþýðukórinn

Alþýðukórinn svokallaði var öflugur blandaður kór sem starfaði innan verkalýðshreyfingarinnar um árabil á tuttugu öldinni, má segja að hlutverk kórsins hafi verið svipað því sem Lúðrasveit verkalýðsins hefur haft innan hreyfingarinnar.

Alþýðukórinn (í upphafi nefndur Söngfélag verkalýðssamtakanna, stundum jafnvel Söngfélag verkalýðsfélaganna) var stofnaður í ársbyrjun 1950 og var Sigursveinn D. Kristinsson fyrsti stjórnandi kórsins, hann gegndi því starfi næstu árin (utan vetursins 1951-52 þegar Guðmundur Jóhannsson annaðist stjórnina. Jón S. Jónsson tók við Sigursveini og Ásgeir Ingvarsson af Jóni áður en dr. Hallgrímur Helgason tók við honum í kringum 1960. Hallgrímur stýrði honum eftir það og allt til þess er starfsemin lognaðist útaf einhvern tímann eftir miðjan sjöunda áratuginn, líklega árið 1967 þegar Hallgrímur fluttist búferlum erlendis.

Það mun ekki hafa verið fyrr en Hallgrímur tók við kórnum að hann fékk nafnið Alþýðukórinn. Undir því heiti kom út lítil plata með kórnum á vegum Fálkans (líklega fyrir jólin 1962) en í fjölmiðlum um það leyti voru tvær plötur sagðar væntanlegar. Þrátt fyrir töluverða eftirgrennslan finnast ekki upplýsingar nema um aðra plötuna. Hins vegar komu tvö lög út á plötunni Amma raular í rökkrinu (árið 1975) en á þeirri plötu er að finna lög Ingunnar Bjarnadóttur í flutningi ýmissa listamanna. Þau lög með Alþýðukórnum er ekki að finna á litlu plötunni.

Efni á plötum