Artika (2006-09)

Artika

Artika

Hljómsveit Artika kom úr Hafnarfirði og starfaði um fjögurra ára skeið. Sveitin var stofnuð 2006 og voru stofnmeðlimir hennar Örn Erlendsson gítarleikari, Einar Logi Hreinsson gítarleikari (Negatrivia) og Einar Karl Júlíusson trommuleikari (Gloryride, In the company of men o.fl.).

Vorið 2007 tók Artika þátt í Músíktilraunum og höfðu þá Jóhannes Pálsson söngvari og Aníta Björk Hlynsdóttir bassaleikari bæst í hópinn en Rúnar Sveinsson (Endless dark, Lightspeed legend o.fl.) hafði tekið við trommunum af Einari Karli. Þó svo að sveitin kæmist ekki í úrslit Músíktilraunanna var Rúnar trommuleikari kjörinn besti trymbill tilraunanna.

Sveitin keppti sama ár í úrslitum hljómsveitakeppninnar Global battle of the bands og lenti þar í öðru sæti.

Artika tók aftur þátt í Músíktilraunum 2009 og komst þá í úrslit. Þá var sveitin skipuð þeim Einari Loga, Erni og Jóhannesi en Vignir Rafn Hilmarsson (Ultra mega technobandið Stefán, Agent fresco o.fl.) hafði tekið við bassanum og Níels Adolf Svansson var nýr trymbill sveitarinnar.

Tveir aðrir bassaleikarar komu við sögu Artika um skamman tíma, Örn Ingi Unnsteinsson og Jón Anton Stefánsson.

Sveitin hætti vorið 2009.