Deild 1 (1983)

Deild 1

Deild 1

Hljómsveitin Deild 1 hafði gengið undir nafninu Puppets í nokkra mánuði vorið 1983 og gengið þannig undir heilmiklar mannabreytingar þegar Björgvin Gíslason fékk hana til að leika undir á tónleikum til að kynna plötu sína, Örugglega, sem þá var nýkomin út. Niðurstaðan varð sú að Björgvin gekk til liðs við sveitina sem hljómborðs- og gítarleikari, auk þess að syngja, og við það tækifæri breytti hún nafni sínu í Deild 1. Aðrir meðlimir hennar voru þá Eiríkur Hauksson söngvari og gítarleikari, Ásgeir Bragason trommuleikari, Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari og Richard Korn bassaleikari.

Eitt fyrsta verkefni sveitarinnar var að hita upp ásamt fleiri íslenskum hljómsveitum fyrir bresku sveitina Echo & the bunnymen sem spilaði hér sumarið 1983.

Deild 1 lék á ýmsum dansleikjum þetta sumar og m.a. í Þjórsárdal um verslunarmannahelgina, síðsumars hætti Ásgeir trymbill hins vegar í hljómsveitinni og í kjölfarið fór hún í pásu, Magnús Stefánsson (Utangarðsmenn o.fl.) hljóp í skarðið um tíma en svo fór að hún hætti endanlega störfum þrátt fyrir fremur mikla athygli, ástæðan var fyrst og fremst ágreiningur um hvers konar tónlist sveitin ætti að einskorða sig við, einhver hluti meðlima hennar vildi spila þungt rokk á meðan aðrir kusu annars konar léttari tónlist. Deild 1 lifði því aðeins í nokkra mánuði.