Puppets (1983)

Puppets

Puppets

Hljómsveitin Puppets var stofnuð í marsbyrjun 1983 í Reykjavík. Í upphafi voru meðlimir hennar Eiríkur Hauksson söngvari og gítarleikari (Start, Þeyr o.fl.) Rúnar Erlingsson bassaleikari (Utangarðsmenn), Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari (Start o.m.fl.) Kristján Edelstein gítarleikari (Chaplin) og Oddur Sigurbjörnsson trommuleikari (Tappi tíkarrass o.fl.).

Þeir Kristján, Rúnar og Oddur heltust þó úr lestinni áður en sveitin spilaði opinberlega og sæti þeirra tóku Ásgeir Bragason trommuleikari (Purrkur pillnikk) og Richard Korn bassaleikari.

Nú gerðust hlutirnir hratt, Björgvin Gíslason sem var að kynna nýútkomna sólóplötu sína (Örugglega) fékk þá félaga til að leika undir með sér á uppákomum tengdum útgáfunni og svo fór að hann gekk til liðs við Puppets sem gítarleikari og söngvari en einkum þó sem hljómborðsleikari sem ýmsum þótti sérstakt. Við þetta tækifæri ákváðu félagarnir að breyta nafni sveitarinnar í Deild 1 og varð saga Puppets því ekki lengri, aðeins um tveir mánuðir.