Englaryk (1978-81)

Englaryk1

Englaryk

Pönksveitin Englaryk var annar undanfari hljómsveitarinnar Vonbrigða, sem síðar varð hlutgervingur íslensks pönks enda átti titillag þeirrar sveitar ekki lítinn þátt í að kynna kvikmyndina Rokk í Reykjavík.

Englaryk mun hafa verið nokkuð langlíf sveit á þess tíma mælikvarða, hún var líklega stofnuð 1978 af þeim Jóhanni Vilhjálmssyni gítarleikara, Jökli Friðfinnssyni bassaleikara, Grétari [?] og Bessa [?] en ekki liggur fyrir á hvaða hljóðfæri þeir síðarnefndu léku.

Englaryk naut aldrei neinna sérstakra vinsælda og í raun voru allar tónleika umsagnir um sveitina í fjölmiðlum neikvæðar. Í blaðaviðtali tala meðlimir sveitarinnar meira að segja um að lögreglan sé að skipta sér af nafni hennar, þyki það óviðeigandi.

Þórarinn Kristjánsson trommuleikari og Sigurður Ágústsson söngvari komu í sveitina í stað þeirra Grétars og Bessa, og á síðustu metrunum, sumarið 1981, leysti Sigurlaug Jónsdóttir (Didda skáldkona) Sigurð söngvara af hólmi. Þannig skipuð starfaði Englaryk stutt og svo fór að þá um haustið stofnuðu Jóhann og Þórarinn, sem einnig var í hljómsveitinni Raflost[2], hljómsveitina Vonbrigði ásamt tveimur félögum úr Raflosti[2]. Um leið hætti Englaryk störfum.