Hljómsveit Magnúsar Randrup (1950-68)

Hljómsveit Magnúsar Randrup1

Hljómsveit Magnúsar Randrup

Hljómsveit Magnúsar Randrup var kennd við stjórnanda hennar, Hafnfirðinginn Magnús Kristinn Randrup en hann lék á harmonikku, saxófón og horn, sveitin var alla tíð harmonikkusveit sem lagði áherslu á gömlu dansana.

Magnús starfrækti sveitir undir eigin nafni líklega í þrenns konar útgáfum en tvær þeirra fá hér stærstan hluta umfjöllunarinnar.

Fyrsta útgáfa hljómsveitar Magnúsar var stofnuð 1950 og starfaði þar til í ársbyrjun 1957, hún var skipuð auk Magnúsar sjálfs, þeim Guðmundi Steingrímssyni trommuleikara, Guðmundi Vilbergssyni harmonikku- og trompetleikara, Halli Símonarsyni bassaleikara og Rúti Hannessyni píanó- og harmonikkuleikara.

Fjölmargir söngvarar komu við sögu sveitarinnar á þessu sjö ára tímabili en þar má nefna Erling Hansen, Öddu Örnólfs, Ragnar Bjarnason, Ólaf Briem, Hönnu Ragnarsdóttur, Alfreð Clausen og Skapta Ólafsson, eflaust hafa söngvararnir verið enn fleiri. Það sama má segja um hljóðfæraleikarana en ekki hafa fundist upplýsingar um fleiri.

1961 kom önnur útgáfa hljómsveitar Magnúsar til sögunnar en flestir meðlimir hennar höfðu verið saman í annarri sveit, Fjórum jafnfljótum. Meðlimir í þeirri sveit voru þeir Siggeir Björgvinsson píanó- og harmonikkuleikari, Vilhjálmur Guðjónsson klarinettuleikari, Skapti Ólafsson trommuleikari, Torfi Baldursson gítarleikari, Jóhannes Jóhannesson harmonikkuleikari og Magnús sjálfur, sem eins og áður lék aðallega á harmonikku og saxófón.

Poul Bernburg trommuleikari kom einnig eitthvað við sögu þessarar útgáfu sveitarinnar en hún starfaði að minnsta kosti til 1968 en slitrótt undir það síðasta. Margir söngvarar sungu með þessari útgáfu sveitarinnar eins og hinni fyrri, og þar má nefna Gunnar Einarsson, Herdísi Björnsdóttur og Siggu Maggy (Sigríði Magnúsdóttur). Ástæða þess hve margir sungu með hljómsveitinni var sú að á þessum árum tíðkaðist að söngvarar væru lausráðnir hjá sveitunum en væri ekki hluti af þeim.

Í kringum 1980 var Magnús enn kominn með sveit undir eigin nafni en ekki liggja fyrir upplýsingar um hverja hún skipaði, Skapti Ólafsson var þó líklegast söngvari þeirrar sveitar, sem tileinkaði sér eins og áður gömlu dansana.