Hljómsveit Kristjáns Elíassonar (1945)

engin mynd tiltækÍ raun hefur Hljómsveit Kristjáns Elíassonar aldrei verið til en Svavar Gests segir frá því í bók sinni, Hugsað upphátt að tónlistarmaður að nafni Kristján Elíasson hafi komið að máli við þá sem önnuðust ráðningar í Ingólfskaffi 1945 og boðist til að útvega þeim fjögurra manna hljómsveit fyrir helming þess verðs sem eðlilegt þótti.
Þeir féllust á það og síðan mætti hann á umsömdum tíma vopnaður harmonikku sem tengdur var með míkrafón í hátalarakerfi (ígildi tveggja hljóðfæraleikara), bassatrommu og hi-hat trommu (sem hann sparkaði í um leið sem þriðji hljóðfæraleikarinn). Að auki tók hann enga pásu en vaninn var að ráðinn væri hljóðfæraleikari til að spila í pásu (þar var fjórði hljóðfæraleikarinn kominn).
Það þarf varla að nefna það að Kristján þessi var ekki ráðinn nema í þetta eina skipti en hann fékk auðvitað greitt fyrir vinnu sína.