Jón Múli Árnason (1921-2002)

Jón Múli Árnason1

Jón Múli í þularstofu

Líklega eru fá nöfn jafn samtvinnuð Ríkisútvarpinu og nafn Jóns Múla Árnasonar þular.

Þrátt fyrir að vera þekktastur fyrir þularhlutverk sitt kom Jón Múli (f. 1921) þó með margs konar hætti að tónlist. Hann nam hljómfræði og trompetleik við Tónlistarskólann í Reykjavík 1945-46 og lærði einnig söng hjá Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara 1951 og 52. Jón Múli var enn fremur einn af stofnendum Lúðrasveitar verkalýðsins 1953 og lék á kornett með sveitinni í tæplega tuttugu ár. Þar var hann gerður að heiðursfélaga 1991.

Framan af var Jón Múli virkur sósíalisti og söng t.d. stundum einsöng á fundum þeirra, hann var framarlega í flokki mótmælenda við Austurvöll 1949 þegar inngöngu í NATO var mótmælt, fyrir það hlaut hann fangelsisdóm sem þó var aldrei framfylgt.

Jón Múli var einnig tónskáld, vann að mestu leyti með Jónasi bróður sínum og saman sömdu þeir söngleikina Delerium Bubonis og Járnhausinn en einnig samdi hann tónlistina við söngleikina Rjúkandi ráð og Allra meina bót, sem hefur komið úr á samnefndum plötum. Hann samdi einnig tónlist í einhverjum mæli án þess að söngleikir kæmu þar við sögu en lög sín kallaði hann söngdansa.

Lög hans hafa verið gefin út á plötum með ýmsum flytjendum s.s. Hauki Morthens, Fjórtán Fóstbræðrum, Hornaflokki Kópavogs, Lúðrasveit verkalýðsins og sönghópnum Rjúkandi svo dæmi séu tekin en einnig hafa ýmsir tónlistarmenn flutt lög hans á plötum honum til heiðurs eins og Lög Jóns Múla Árnason (1981), Lög Jón Múla Árnason við texta Jónasar Árnasonar (1987), Melónur og vínber fín (1998), Söngdansar Jóns Múla Árnasonar með Óskari Guðjónssyni og Delerað (2000), Keldulandið með Óskari Guðjónssyni og Eyþóri Gunnarssyni (2001) og Á Ljúflingshól (2009) þar sem Sigríður Thorlacius og Heiðurspiltar syngja og leika lög hans. Enn fremur kom út 2011 þriggja platna safn, Söngdansar og ópusar. Einstök lög eftir Jón Múla hafa aukinheldur komið út á tugum platna tónlistarmanna hérlendis.

Þekktastur er Jón Múli eins og fyrr segir, fyrir útvarpsstörf sín, hann hóf að starfa í Ríkisútvarpinu 1946 og gegndi í gegnum tíðina ýmsum störfum þar, hann var þulur, fréttamaður, fulltrúi í tónlistar- og leiklistardeild, fréttaritari RÚV á ólympíuleikum og annaðist djassþáttagerð á árunum 1945 – 95 en hann var mikill djassáhugamaður.

Sagan segir að Jón Múli hafi byrjað útvarpsferil sinn á því þegar hann kom inn í útvarpsþátt Einars Pálssonar og gagnrýnt hann fyrir að kunna ekki skil á helstu sólóum Dukes Ellingtons. Einar á að hafa svarað honum að fyrst hann væri svo klár, af hverju kæmi hann bara ekki í þáttinn sem Jón lét ekki segja sér tvisvar. Fljótlega hóf hann því að annast djassþátt á ríkisútvarpinu en hann mun hafa hlustað á djass allt frá 1934.

Jón Múli Árnason og Lous Armstrong

Jón Múli ásamt Louis Armstrong

Jón Múli annaðist einnig útvarpskynningar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands allt frá stofnun hennar 1950 til ársins 1990. Hann var ennfremur fulltrúi í útvarpsráði um tíma og Nordjazz. Það má því segja að starfsævi hans hafi að mestu legið innan dyra Ríkisútvarpsins. Og rætur hans til útvarpsins lágu enn lengra því hann var giftur Ragnheiði Ástu Pétursdóttur og var um leið tengdasonur Péturs Péturssonar en þau voru bæði þulir hjá útvarpinu. Þess má geta að Jón Múli var um leið fósturfaðir Eyþórs Gunnarssonar tónlistarmanns (og um leið tengdafaðir Ellenar Kristjánsdóttur söngkonu) en Eyþór er sonur Ragnheiðar Ástu.

Jón Múli naut mikillar virðingar fyrir þá djassvakningu sem hann kveikti með djassþáttum sínum og þegar yngri djassspilarar gáfu út plötur áttu þeir til að tileinka honum plötuna eða að fá hann til að rita nokkur orð á plötuumslög.

Jón Múli var einn af stofnendum Jazzklúbbs Reykjavíkur sem starfaði á árunum 1949-53, sá klúbbur gaf m.a. út tímarit. Ekki voru allir á eitt sáttir um þessa framandi tónlist og sagan segir að kona ein hafi hellt úr fötu fullri af vatni yfir Jón Múla á förnum vegi, auk þess sem hann hafi verið kallaður ýmsum ljótum nöfnum vegna áhuga hans á þessari stórhættulegu tónlist. Þess má geta að djassklúbburinn Múlinn var stofnaður Jóni Múla til heiðurs.

Jón Múli ritaði enn fremur bókina Djass sem út kom 1985 og var eins konar saga djassins, í henni er m.a. að finna stuttan kafla um djass á Íslandi. Ritstörf hans náðu reyndar lengra en hann skrifaði einnig bækurnar Þjóðsögur Jóns Múla Árnason I-III og Söngdansar I-II. Hann fékkst einnig við kennslu, kenndi djasssögu við Tónlistarskóla Félags íslenskra hljómlistarmanna um tíma.

Jón Múli var djassfróður maður og Vernharður Linnet sagði frá því í blaðagrein þegar þeir félagar voru staddir á norrænni djassfræðingaráðstefnu í Noregi 1987, þar flutti Jón Múli erindi um fyrstu erlendu djasstónlistarmennina sem spiluðu á stríðsárunum á Íslandi, eitthvað þótti mönnum undarlegt að Íslendingar stæðu ekki fremstir Norðurlandabúa í djasstónlistinni vegna hernáms Breta og veru Bandaríkjamanna í kjölfarið á meðan Danir og Norðmenn voru undir hæl Þjóðverja. Jón Múli svaraði því til með einföldum hætti: The US army is not a jazzband.

Jón Múli átti við veikindi að stríða um tíma áður en hann lést 2002.

Efni á plötum