Jón Rafn Bjarnason (1961-)

Jón Rafn

Jón Rafn

Hafnfirðingurinn Jón Rafn Bjarnason (f. 1961) var nokkuð áberandi í íslenskri tónlist á níunda áratug tuttugustu aldarinnar en hefur reyndar verið lítt áberandi síðan.

Strax á unglingsárum kom hann við sögu hafnfirskra hljómsveita, t.a.m. hljómsveitarinnar LagEr og Skólahljómsveitar Flensborgarskóla (í kringum 1980) og hann var einmitt í þeim skóla þegar hann vann tónlistina við stuttmyndina Feilpústið, sem skólafélagar hans gerðu. Tónlistin kom út á tveggja laga plötu sem út kom snemma árs 1981 og bar heitið Vinur, hún var gefin út af Fálkanum en þar starfaði Jón Rafn.

Fyrra lagið á plötunni, Ég syng fyrir vin, var einnig meðal þrjátíu laga sem kepptu til úrslita um svipað leyti í Söngvakeppni Sjónvarpsins, sönglagakeppni sem haldin var í eitt skipti og lyktaði með sigri Pálma Gunnarssonar og lagsins Af litlum neista. Lag Jóns Rafns lenti hins vegar í sjötta sæti sem hlýtur að teljast viðunandi árangur en það var flutt af Ragnhildi Gísladóttur í keppninni. Þegar það kom út á plötunni söng hann það sjálfur. Á plötunni léku nokkrir valinkunnir og síðar þekktir tónlistarmenn undir nafninu Stormsveitin en platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og ágæta í Tímanum.

Næstu árin var Jón Rafn lítt áberandi en sumarið 1985 starfaði hann með hljómsveitinni Sex sex frá Bíldudal, síðla sama ár var hann þó aftur kominn heim í Hafnarfjörðinn og spilaði dinner tónlist á veitingastöðum, aðallega A. Hansen í Hafnarfirði næstu árin, oft undir nafninu J.R.

Fjórum árum síðar (1989) kom út önnur plata Jóns Rafns, breiðskífan Lög fyrir þig, en á henni var að finna lög og texta eftir hann, m.a. áðurnefnt lag Ég syng fyrir vin, en nú í breyttri útsetningu.  Upptökur á plötunni fóru fram í Stúdíó Stemmu undir stjórn Jóns Rafns og Péturs Hjaltested, sem lék á plötunni ásamt fleirum. Platan fékk þokkalegar viðtökur gagnrýnenda Morgunblaðsins og DV.

Um svipað leyti birtist lítil frétt í fjölmiðlum þess efnis að tvö lög af plötunni kæmu hugsanlega út á ensku á smáskífu í Bandaríkjunum, af því varð þó aldrei en Jón Rafn hafði tekið upp listamannsnafnið John Raven af því tilefni, reyndar hafði hann notað það nokkrum árum hér heima.

Lítið hefur spurst til Jóns Rafns Bjarnasonar á tónlistarsviðinu síðan.

Efni á plötum