Liljukórinn (1961-69)

Liljukórinn 1964

Liljukórinn 1964

Heimildir um Liljukórinn eru afar misvísandi. Nokkrar þeirra segja Jón Ásgeirsson hafa stofnað kórinn í byrjun árs 1962 en aðrar heimildir segja Stefán Þengil Jónsson og Guðjón Böðvar Jónsson hafa stofnað hann ári fyrr. Enn fremur er kórinn sagður í einni heimild vera frá Akureyri en hið rétta er að hann var starfandi í Reykjavík.

Jón Ásgeirsson var fyrsti stjórnandi Liljukórsins, á því leikur enginn vafi og stýrði hann kórnum líklega til 1967 þegar Þorkell Sigurbjörnsson tók við honum, en Þorkell var við stjórnvölinn þar til Rut L. Magnússon tók við og stjórnaði til 1969 þegar kórinn lagði upp laupana.

Kórinn mun hafa sérhæft sig nokkuð í íslenskum þjóðlögum og söng alloft í útvarpinu meðan hann starfaði (reyndar kom Liljukórinn ekki fram opinberlega fyrr en 1964 en söng þeim mun oftar í útvarpssal). Minningu kórsins var því lengi haldið á lofti í útvarpsdagskránni þar sem söngur hans var þar lengi fastur liður, jafnvel löngu eftir að hann hætti starfsemi.