
Hamrahlíðarkórinn
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð / Hamrahlíðarkórinn er án efa öflugasti menntaskólakór landsins, og þótt víðar væri leitað. Hann hefur staðið fremstur meðal kóra síðan 1967 þegar hann var stofnaður. Þorgerður Ingólfsdóttir hefur stjórnað kórnum frá upphafi en hún var tónlistarkennari við skólann, sem þá var nýstofnaður.
Í raun er um tvo kóra að ræða, annars vegar Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sem er hinn eiginlegi kór nemenda við skólann en hins vegar Hamrahlíðarkórinn sem er kór fyrrverandi nemenda skólans. Kórarnir tveir hafa þó oft unnið saman að söngverkefnum en síðarnefndi kórinn var stofnaður 1981 og lýtur einnig stjórn Þorgerðar.
Fyrsta plata kórsins, Ljós og hljómar, kom út 1978 en hún var tekin upp í Ríkisútvarpinu. Á þeirri plötu var að finna blandað efni, frá sálmum til jólalaga.
Haustið 1981 var önnur plata tekin upp í Ríkisútvarpinu og kom hún út árið eftir. Hún hét Öld hraðans og á henni var að finna íslensk lög.
Þrjú ár liðu þar til næsta plata kom út, á henni var að finna verk eftir Atla Heimi Sveinsson og bar hún titilinn Haustmyndir: Hamrahlíðarkórinn flytur verk eftir Atla Heimi Sveinsson.
Á næstu plötu, Kveðið í bjargi (1988) var að finna verk eftir íslensk tónskáld (Jón Nordal, Jón Leifs, Þorkel Sigurbjörnsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Atla Heimi Sveinsson) en segja má að um eins konar safnplötu sé að ræða þar sem á henni var að finna safn óútgefinna upptaka frá árunum 1981-88.
1990 kom næsta plata út en hún bar þann skemmtilega titil Turtildúfan, jarðarberið og úlfaldalestin, sú plata var afrakstur upptaka frá árunum 1988-90 og á henni er að finna þjóðlög frá ýmsum löndum. Sigurður Rúnar Jónsson vann hljóðversvinnuna að öllu leyti.
Platan Íslensk þjóðlög var næst á dagskrá, hún kom út 1993 og var endurútgefin þrisvar sinnum á næstu tíu árum. Eins og titillinn gefur til kynna var um að ræða íslensk þjóðlög sem lifað hafa með þjóðinni í gegnum aldirnar, en í útsetningum ýmissa tónskálda. Flest laganna voru úr safni Bjarna Þorsteinssonar en platan var hljóðrituð í Langholtskirkju.
Íslenskir jólasöngvar & Maríukvæði varð sú sjöunda í röðinni, kom út 1996 en hún var tekin upp í Landakotskirkju. Platan hlaut góðar viðtökur og fékk t.a.m. prýðilega dóma í Morgunblaðinu
Árið 2002 kom út afmælisplata, Vorkvæði um Ísland, en það ár átti kórinn þrjátíu og fimm ára afmæli. Veglega var staðið að útgáfunni og tók t.d. um tvö ár að hanna umslagið utan um plötuna.
2008 gaf kórinn út plötuna Þorkell til heiðurs tónskáldinu Þorkels Sigurbjörnssonar, en hann varð þá sjötugur. Á henni var að finna verk eftir Þorkel.
Ári síðar kom þriðja jólaplata kórsins út, Jólasagan, sem jafnframt var tíunda plata kórsins. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu en á henni er að finna upptökur frá ýmsum tímum.
Kórinn hefur tekið þátt í Europa Cantat frá 1976 en það er alþjóðleg kórahátíð, haldin ár hvert. Hann hefur einnig komið fram sem fulltrúi Íslands á ýmsum öðrum tónlistar- og kóramótum erlendis, s.s. í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Kórinn vann fyrstu verðlaun í flokki æskukóra á kórahátíðinni Let the people sing árið 1984, hann hefur einnig hlotið titilinn flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum (2002) og verið tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í tvígang.
Hamrahlíðarkórinn er ennfremur aðili að European federation of young choirs, sem er Evrópusamband æskukóra. Kórinn er einnig einn af stofnendum Alþjóðasamtaka kóratónlistar (International federation for choral music).
Kórinn hefur starfað með ýmsum listamönnum og jafnframt komið fram á plötum þeirra, má þar t.d. nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Spilverk þjóðanna og Jólaketti svo eitthvað sé nefnt en einnig hefur kórinn sungið inn á ýmsar safnútgáfur eins og t.a.m. Trúartóna (1999), Fuglinn í fjörunni (1998), Jórunni Viðar: afmælisútgáfu (2008) og Mattheusar-passíu (1982) svo eitthvað sé nefnt.