Ljósbrá [2] (1983-86)

engin mynd tiltækHljómsveit frá Hveragerði starfaði á árunum 1983-86 og bar nafnið Ljósbrá eins og önnur hljómsveit áratug áður, sem reyndar var norðlensk.

Hin hvergerðska sveit herjaði nokkuð á sveitaballamarkaðinn í Árnessýslu og skartaði mönnum eins og Hermanni Ólafssyni söngvara, Sölva Ragnarssyni gítarleikara, Ingvari Péturssyni hljómborðsleikara, Jónasi Þórðarsyni og Sigurði Helgasyni en ekki er ljóst á hvað þeir tveir síðast töldu spiluðu, Jónas gæti þó hafa verið bassaleikari.

Eins þurfa ekki þessir meðlimir allir að hafa verið í sveitinni samtímis.

1986 hætti Hermann söngvari til að syngja með annarri sunnlenskri ballsveit, Lótus en hann átti einnig eftir að vekja athygli í Látúnsbarkakeppni Stuðmanna það sama ár. Þeir Jónas og Sigurður áttu eftir að poppa upp í enn einni sveitinni á Suðurlandi, Kaktus.

1985 fór hljómsveit með þessu nafni sumartúr, a.m.k. um norðanvert landið en með henni sungu þá Óðinn Valdimarsson og fleiri. Ekki er ljóst hvort um sömu sveit er að ræða en Óðinn sagði þá í blaðaviðtali að sveitarmenn væru allir ungir að árum.

Allar upplýsingar um þessa sveit eru vel þegnar.