Mexíkó (1975-76)

Mexicó

Mexíkó

Hljómsveitin Mexíkó (Mexico), stofnuð síðsumars 1975, starfaði í eitt ár en náði ekki að gera neinar rósir þrátt fyrir að menn gerðu sér vonir um þessa sveit enda var hún skipuð þrautreyndum og góðum hljóðfæraleikurum.

Meðlimir sveitarinnar voru Þórður Árnason gítarleikari, Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari og söngvari, Guðmundur Benediktsson hljómborðsleikari og söngvari, Bjarki Tryggvason bassaleikari og söngvari, og Ragnar Sigurjónsson trommuleikari en þeir höfðu allir verið í þekktum sveitum þegar hér var komið sögu.

Mexíkó spilaði tónlist í anda Eagles og þess konar sveita og notaði töluvert raddanir í flutningi sínum, sveitin var nokkuð mikið á ferðinni sumarið 1976 en þegar leið að hausti leystist sveitin í frumeindir sínar enda hafði Þórður þá yfirgefið hana til að starfa með Stuðmönnum sem þá unnu að Tívolí plötu sinni í London, Guðmundur hafði þá einnig gefið út að hann ætlaði að hætta og því fór sem fór að sveitin hætti án þess að vera nokkuð meira en efnileg sveit sem líkleg þótti til afreka.