Metan (1982-88)

metan

Metan

Hljómsveitin Metan frá Sauðárkróki var í raun stofnuð 1982 en gekk undir nafninu Bad boys (keppti í Músíktilraunum 1983) með einhverjum mannabreytingum til ársins 1986 þegar hún hlaut nafnið Metan.

Vorið 1987 tók Metan þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og komst þar í úrslitin. Birkir Guðmundsson hljómborðsleikari, Kristinn Baldvinsson hljómborðsleikari, Kristján Gíslason hljómborðsleikari og söngvari, Árni Þorbjörnsson bassaleikari, Karl Jónsson trommuleikari og Svavar Sigurðsson gítarleikari skipuðu þá sveitina en það vakti óneitanlega athygli að hún skyldi innihalda þrjá hljómborðsleikara. Sveitin hafnaði í öðru sæti á eftir Stuðkompaníinu og á undan Kvass sem lenti í þriðja sætinu.

Kristinn hætti síðar í sveitinni og fljótlega eftir það (líklega snemma vors 1988) breytti sveitin aftur um nafn og kallaði sig Herramenn. Undir því nafni átti sveitin eftir að gera það nokkuð gott.

Hugsanlegt er að maður að nafni Óskar Páll [Sveinsson?] hafi verið í sveitinni um tíma.