Nefrennsli (1982-84)

Nefrennsli1

Nefrennsli

Hljómsveitin Nefrennsli á upphaf sitt að rekja til Fossvogsins en þar var sveitin stofnuð sumarið 1982 af Alfreð Jóhannesi Alfreðssyni (Alla pönk) gítarleikara og Jóni Gunnari Kristinssyni (Jóni Gnarr) söngvara, fljótlega bættist Hannes A. Jónsson trommuleikari í hópinn og síðan Dóri [?] bassaleikari.
Þeir Jón og Dóri hættu þó fljótlega.

Nefrennsli hætti tímabundið störfum síðla sumars en byrjaði fljótlega aftur, sveitin tók þátt í fyrstu Músíktilraununum um haustið en komst ekki í úrslitin, ástæðan mun fyrst og fremst hafa verið sú að sveitin var illa upplögð eftir að hafa tekið þátt í maraþontónleikum rétt áður og spilað þar í eina tólf tíma. Þá hafði Alfreð tekið við söngnum og bassaleikarinn Sigurbjörn R. Úlfarsson bæst einnig í hópinn, ennfremur trommuleikarinn Beggi [?] sem hafði komið í stað Hannesar sem hafði hætt nokkru fyrr.

Vorið 1983 hætti Beggi trommuleikari og þá kom Hannes aftur inn, sem og Jóhann G. Bjarnason hljómborðsleikari. Þannig skipuð starfaði sveitin til haustsins en þá var send út fréttatilkynning til fjölmiðla þess efnis að sveitin væri að hætta en hún hafði þá starfað í um eitt og hálft ár. Lokatónleikar voru haldnir af því tilefni.

Einhverjar tilraunir voru gerðar til að endurreisa sveitina vorið 1984, þeir Alfreð, Sigurbjörn og Hannes byrjuðu en hættu fljótlega aftur. Meðlimir sveitarinnar fóru hver í sína áttina og löngu síðar birtust einhverjir þeirra í hljómsveitinni Leiksvið fáránleikans.

Nefrennsli fékk heilmikla athygli fjölmiðla á sínum tíma, einkum í tengslum við Músíktilraunirnar og einhverjar upptökur liggja eftir sveitina, í seinni tíð hefur Jón Gnarr einkum auglýst sveitina í fjölmiðlum en án hans framlags væri sveitin eflaust flestum gleymd.

Vorið 2016 kom út sjö tomman Nefrennsli 1982/1983 en sú plata hafði að geyma efni frá þeim árum er hún starfaði fyrrum. Fyrri hliðin hefur að geyma svokallað „vandræðapönk“ eins og Sigurjón Kjartansson mun hafa skilgreint tónlistina og þar kemur söngvarinn Jón Gnarr við sögu, seinni hliðin inniheldur nýbylgjupopp. Platan kom út í takmörkuðu upplagi, fimmtíu eintökum.

Efni á plötum