Sokkabandið [1] (1982-85)

Sokkabandið

Hljómsveitin Sokkabandið frá Ísafirði er með allra fyrstu kvennasveitum sem starfað hafa á Íslandi en hún mun hafa verið starfandi á árunum 1982-85, sumar heimildir segja hana stofnaða fyrr.

Stofnmeðlimir Sokkabandsins voru þær Ásthildur Cesil Þórðardóttir bassaleikari, Eygló Jónsdóttir gítarleikari og Oddný Sigurvinsdóttir gítarleikari en þær höfðu frumkvæði að stofnun sveitarinnar, síðan bættust við þær Bryndís Friðgeirsdóttir trommuleikari, Rannveig Ásgeirsdóttir hljómborðsleikari og Ingunn Björgvinsdóttir söngkona.

Rannveig hljómborðsleikari og Ingunn söngkona stöldruðu ekki lengi við og tóku Björk Sigurðardóttir og Ásdís Guðmundsdóttir við þeirra hlutverkum. Fjóla Magnúsdóttir trommuleikari og Bára Elíasdóttir [?] voru ennfremur í sveitinni á einhverjum tímapunkti.

Það má segja að ekkert kynslóðabil hafi ríkt í Sokkabandinu, tuttugu og þriggja aldursmunur var á þeirri yngstu og elstu en Ásthildur Cesil var komin fast að fertugu þegar sveitin starfaði.

Sveitin keppti í fyrstu Músíktilraunum Tónabæjar (1982) og komst þar í úrslit, það er ekki nóg með að sveitin hafi verið meðal keppnissveita á fyrstu tilraununum heldur var sveitin sú sem steig allra fyrst á svið í þeim.

Sokkabandið starfaði til ársins 1985 en Ásthildur Cesil er sú eina sem hefur fengist við tónlist eftir það, eftir hana liggur m.a. sólóplatan Sokkabandsárin.

Sveitin kom saman árið 2011 og lék á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður.