Svefngalsar (1986)

engin mynd tiltækHljómsveitin Svefngalsar er líkelga flestum gleymd en hún vakti nokkra athygli 1986 er hún gaf út sína fyrstu og einu plötu.

Svefngölsum skaut skyndilega upp á sjónarsviðið með fullunna plötu haustið 1986 en hún hafði þá lítið sem ekkert leikið opinberlega, reyndar virðist hún ekkert hafa spilað opinberlega þrátt fyrir að hafa ætlað sér það til að fylgja plötunni eftir.

Hljómsveitin var skipuð þeim Birni Vilhjálmssyni bassaleikara, Sigurgeiri Sigmundssyni gítarleikara (Start o.fl.), Níels Ragnarssyni hljómborðsleikara, Birgi Baldurssyni trommuleikara (S.h. draumur, Sálin hans Jóns míns o.m.fl.), og söngvurunum Guðrúnu Gunnarsdóttur (en þetta er líklegast eina hljómsveitin sem sú mæta söngkona hefur verið í) og Júlíusi Hjörleifssyni leikara en hann var driffjöðrin í sveitinni, samdi megnið af tónlistinni og textunum. Ýmsir aðrir leikarar eru einmitt í gestahlutverki á plötunni.

Platan hlaut nafnið Spilduljónið, sem mun vera skírskotun í dráttarvélategund en þema plötunnar var dreifbýlið í sinni víðustu merkingu, t.a.m. styrkti búnaðardeild Sambands íslenskra samvinnufélaga útgáfuna og var hún gefin út undir útgáfunafninu Blaðstýft aftan. Umslag plötunnar og textarnir bera einnig nokkurn keim af því þema. Platan sjálf var blá að lit.

Gagnrýnendur áttu fremur erfitt með að skilgreina tónlist Svefngalsa sem þótti tengd ýmsum straumum og stefnum, en heilt yfir voru þeir þó hrifnir af plötunni, hún fékk þannig góða dóma í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu og ágæta í DV og Helgarpóstinum. Lög af henni heyrðust lítið leikin á útvarpsstöðvum en lagið Strammaðu af heyrðist þó nokkuð, það komst t.d. inn á vinsældalista Rásar 2 um haustið.

Svefngalsar urðu ekki langlíf hljómsveit, lifði aðeins í nokkra mánuði þrátt fyrir að gagnrýnendur blaðanna töluðu um bjarta framtíð. Meðlimir sveitarinnar hösluðu sér völl í öðrum hljómsveitum en þau Guðrún, Birgir og Sigurgeir hafa öll orðið þekkt í tónlistinni þótt það sé á mismunandi sviðum hennar.

Efni á plötum