Afmælisbörn 11. júní 2023

Kiddi rót

Í dag eru afmælisbörn Glatkistunnar tvö:

Jón Þór Hannesson framleiðandi er sjötíu og níu ára gamall í dag. Hann hóf sinn tónlistartengda feril með rekstri ólöglegrar útvarpsstöðvar 1962 ásamt Pétri Steingrímssyni og var handtekinn fyrir uppátækið. Jón Þór var einnig í hljómsveitinni Tónum um miðjan sjöunda áratuginn áður en hann sneri sér upptökufræðum, þar sem hann tók upp margar hljómplötur, varð síðar einn stofnenda og eigenda Hljóðrita í Hafnarfirði auk þess sem hann rak Hljómplötuútgáfuna samhliða störfum hjá Ríkissjónvarpinu. Síðar varð hann framleiðandi í auglýsingagerð og leiðandi afl í þeim fræðum hérlendis.

Kristinn T. Haraldsson eða Kiddi rót eins og hann er iðulega nefndur, er sextíu og níu ára gamall á þessum degi. Hann er þekktastur fyrir framlag sitt sem rótari hljómsveita, meðal annars fyrir Júdas. Kiddi komst einnig í fréttirnar síðar sem ráðherrabílstjóri og rekstraraðili veitingahússins Kaffi Kidda rót.

Vissir þú að ennþá eru þeir til sem tala um hið týpíska sextánda sæti Íslendinga í Eurovision þrátt fyrir að Ísland hafi ekki hafnað í því sæti síðan 1988?