Hljómsveitin Myrkvi sendir nú frá sér lagið Early warning en það er síðasta smáskífan af væntanlegri breiðskífu sveitarinnar, áður höfðu lögin Self-pity og Miserable people komið út í smáskífuformi. Hér má heyra lagið.
Þeir félagar lýsa laginu sjálfir á þann hátt að Myrkvi slái upp garðteiti og þér sé boðið. Slík er stemningin í nýjasta lagi Myrkva. Eftirvænting eftir deginum í dag og jákvæðir straumar geisla frá laginu. Lýsa mætti því sem tesopa í vínglasi eða stefnumóti bretapopps og nútíma „slakker“ rokks.
Myrkvi er samstarfsverkefni þeirra Magnúsar Thorlacius og Yngva Rafns Garðarssonar Holm en Magnús hafði áður starfað einn undir þessu nafni og sent frá sér plötuna Reflections, við gerð nýju plötunnar hafa þeir unnið út frá því sem þeir kalla týndu árin og hljóðheim uppvaxtaráranna sitt hvoru megin aldamótanna. Þeir félagar höfðu áður sigrað Músíktilraunir vorið 2014 með hljómsveitinni Vio og vakið þar verulega athygli fyrir tónlist sína.
Í ágúst verður Myrkvi á ferð um Evrópu til að kynna tónlist sína þar sem þeir leika á nokkrum tónleikum í Póllandi og Þýskalandi en dúóið verður svo á Iceland Airwaves hér heima í haust.














































