Afmælisbörn 30. júlí 2023

Erna Þórarinsdóttir

Þrjú afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar þennan daginn:

Söngkonan Erna Þórarinsdóttir sem upphaflega kom frá Akureyri er sextíu og fjögurra ára gömul í dag. Erna gerði garðinn frægan með hljómsveitum og söngflokkum eins og Brunaliðinu, Módel, Snörunum, Hver og Ernu Evu Ernu en hefur einnig verið mikið í bakraddasöng og sungið inn á ótal plötur t.a.m. með Páli Óskari, Nýdanskri, Sálinni hans Jóns míns, Bjartmari Guðlaugssyni og Björgvini Halldórssyni.

Jósep Gíslason tónskáld, píanó- og hljómborðsleikari er fimmtíu og níu ára gamall í dag. Fáir hafa líklega komið við sögu í fleiri sveitum en Jósep og hér eru einungis nefndar nokkrar af þeim, Kvart, Santiago, Tækniskólabandið, Galíleó, Flugan, Mikki refur, Lamarnir, Genesis bandið og Martsmart en hann hefur einnig unnið með sólóefni og við kvikmyndatónlist svo dæmi séu nefnd.

Haraldur Guðmundsson kórstjórnandi, lúðrasveitastjórnandi o.fl. (1922-81) átti afmæli á þessum degi en hann var mikill framámaður í tónlistinni bæði í Vestmannaeyjum og Neskaupstað. Haraldur stofnaði m.a. Lúðrasveit verkalýðsins sem hann stjórnaði einnig en jafnframt stjórnaði hann lúðrahljómsveitum og kórum á áðurnefndum stöðum þar sem hann starfaði við tónlistarkennslu. Þá starfrækti hann einnig danshljómsveitir.

Vissir þú að Þórir Baldursson starfaði á árum áður með tónlistarfólki eins og Elton John, Giorgio Moroder, Donnu Summer og Grace Jones?