
Rögnvaldur Bragi Rögnvaldson
Sex afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:
Hans (Þór) Jensson saxófónleikari er áttatíu og tveggja gamall. Hans lék lengstum með Lúdó sextettnum (áður Plútó/Plúdó) en mun einnig hafa leikið með sveitum eins og Hljómsveit Ólafs Gauks og Hljómsveit Elfars Berg. Heimildir segja að hann hafi verið einn af stofnendum Samkórs Mýramanna og stjórnað kórnum um tíma. Hans hefur leikið inn á fjölda hljómplatna og er tónleikaplata Sálarinnar hans Jóns míns, 12. ágúst ´99 ein þeirra en Hans er einmitt faðir Jens Hanssonar saxófónleikara Sálarinnar.
Steindór Andersen kvæðamaður frá Suðureyri við Súgandafjörð er sextíu og níu ára gamall í dag. Margir muna eftir samstarfi Steindórs og hljómsveitarinnar Sigur rósar upp úr aldamótum en Steindór túraði með sveitinni og kvað rímur, einnig kom út plata með því samstarfi. Að minnsta kosti þrjár plötur aðrar plötur hafa komið út með Steindóri þar sem hann kveður m.a. Úlfhamsrímur, en meðal samstarfsmanna hans er Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði.
Akureyringurinn Rögnvaldur gáfaði Bragi Rögnvaldsson bassaleikari er fimmtíu og átta ára gamall á þessum degi. Rögnvaldur var öflugur í norðlensku tónlistarlífi hér áður og lék þá með sveitum eins og Lost, Jómfrú Kamilíu, Lúnaskrospýjunni, Sýkkklunum, Möðruvallamunkunum, Joð-ex, Betl, Skrokkabandinu og Parror en síðar í þekktari sveitum eins og Dægurlagapönkhljómsveitinni Húfu og Hvanndalsbræðrum.
Bjarni Þór Sigurðsson fagnar fimmtíu og fimm ára afmæli í dag. Bjarni er fæddur í Reykjavík þótt hann sé oft kenndur við Bíldudal enda lék hann með hljómsveitinni Græna bílnum hans Garðars sem þar starfaði. Þar fyrir utan hefur hann leikið með hljómsveitum og sönghópum eins og XD3, Vesturförunum Climax, Hátveiro, Hljómsveit hússins og Strandamönnum auk þess sem hann hefur sungið með kórum. Ein sólóplata liggur eftir hann.
Þá á Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari þrjátíu og níu ára afmæli en hún er ein af Spaðadrottningunum sem lék með Bubba Morthens á plötunni 18 konur, þá er hún í hljómsveitinni Syntagma rembetiko. Margrét hefur einnig m.a. komið við sögu á plötum með Gímaldin, Íkorna, Heimi rappara og Harmonikkufélagi Reykjavíkur, gegnir ennfremur starfi framkvæmdastjóra Reykjavik Folk Festival og hefur komið að verkefnum eins og Stelpur rokka og Reykjavik Kabarett.
Að lokum er hér nefndur Hjalti Freyr Ragnarsson söngvari og gítarleikari en hann fagnar þrjátíu og tveggja ára afmæli á þessum degi. Hjalti Freyr hefur spilað með hljómsveitum af margvíslegu tagi og hér eru nefndar sveitirnar Godchilla, Holdgervlar, Kaleikur, Venetian blinds og Panos from Komodo.
Vissir þú að stjórnmálaskörungurinn Gunnar Thoroddsen var einnig tónskáld?














































