Iceland Airwaves 2023

Hin árlega tónlistarveisla Iceland Airwaves er handan við hornið og eins og oft áður verður Glatkistan á ferð með myndavélina á lofti um þessa miklu tónleikahelgi. Veislan hefst á morgun miðvikudag með fjölda tónlistarviðburða en hátíðin verður svo sett formlega á fimmtudaginn og heldur áfram með samfleytu tónleikahaldi fram á sunnudag þar sem fjöldi íslenskra og erlendra tónlistarmanna kemur fram. Þar fyrir utan verður fjöldinn allur af off venue viðburðum víða um borgina fyrir þá sem ekki hafa armbönd.

Fyrstu viðburðirnir (off venue) verða á Keflavíkurflugvelli upp úr hádegi á morgun, miðvikudag og svo færist tónleikahaldið til höfuðborgarsvæðisins þar sem plötubúðir miðborgarinnar bjóða upp á eitt og annað. Herlegheitin byrja svo fyrir alvöru þegar kvöldar en þá bætast við Airwaves tónleikastaðirnir Iðnó, Kex hostel og Iceland Airwaves centrum. Hér má svo sjá dagskrá hátíðarinnar.