
Sieglinde Kahmann
Fimm afmælisbörn í tónlistargeiranum koma við sögu Glatkistunnar að þessum sinni:
Páll Jóhannesson einsöngvari og bóndi frá Þverá í Öxnadal er sjötíu og þriggja ára gamall í dag, hann nam söng á Ítalíu á sínum tíma og gaf út tvær einsöngsplötur á níunda áratug síðustu aldar þar sem hann naut m.a. aðstoðar Karlakórsins Geysis og Karlakórs Akureyrar.
Þá á söngkonan Janis Carol Walker (Carol Nielsson) sjötíu og fimm ára afmæli í dag. Janis var áberandi í íslensku tónlistarlífi um og upp úr 1970 þegar hún söng með hljómsveitum á borð við Mods og Töturum en áður hafði hún sungið með danshljómsveitum eins og Hljómsveit Guðjóns Pálssonar og Ó.B. kvartett. Janis hvarf síðan af landi brott og var nokkuð áberandi í breska söngleikjaheiminum um tíma en hefur mest alið manninn í Bandaríkjunum hin síðari ár. Janis hefur gefið út tvær tveggja laga plötur og eina breiðskífu, auk þess að syngja inn á nokkrar aðrar plötur.
Óperusöngkonan Sieglinde Kahmann hefði átt afmæli þennan dag en hún lést fyrr á þessu ári. Hún fæddist í austanverðu Þýskalandi 1931 en flúði yfir til Vestur-Þýskalands eftir nám til að nema óperusöng þar sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum Sigurði Björnssyni og með honum kom hún til Íslands 1977 og bjó hér síðan. Hún hafði áður starfað sem óperusöngkona í Vestur-Þýskalandi og Austurríki en hér á landi voru tækifærin færri og fékkst hún einkum við söngkennslu hér.
Margrét Bóasdóttir söngkona fagnar sjötíu og eins árs afmæli sínu í dag. Margrét sem nam söng hér heima og í Þýskalandi hefur sent frá sér eina plötu í eigin nafni en einnig sungið einsöng með kórum m.a. inn á plötur. Þá hefur hún sungið með tónlistarhópnum Raddbandinu, starfað við söngkennslu, kórstjórnun, tónleikaskipulag og að félagsmálum tónlistarmanna svo dæmi séu nefnd.
Og að síðustu er hér nefndur Hilmar Sverrisson frá Sauðárkróki en hann er sextíu og sjö ára gamall á þessum degi. Fáir hafa líklega leikið með jafn mörgum ballhljómsveitum og Hilmar um ævina, þekktust þeirra er Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar en hér má nefna fáeinar eins og Föruneyti Gísla Helgasonar, Goðgá, Hljómsveit Ragnar Bjarnasonar, Víkingarnir, Danshljómsveit Vilhjálms Guðjónssonar, Fræ, Háspenna, MAO, Pólland, Norðan 3, Í gegnum tíðina og þannig mætti áfram telja.
Vissir þú að Nylon systirin Klara Ósk lenti í þriðja sæti Samfés hæfileikakeppninnar 2001?














































