Sex listamenn og hljómsveitir hljóta Kraumsverðlaunin 2023

Kraumsverðlaunahafar 2023

Kraumsverðlaunin, árleg plötuverðlaun Auroru velgerðarsjóðs, voru afhent á KEX í kvöld. Apex Anima, Elín Hall, Eva808, Neonme, Spacestation og ex.girls hljóta Kraumsverðlaunin – árleg plötuverðlaun Auroru velgerðarsjóðs, fyrir plötur sínar. Þetta er í sextánda sinn sem verðlaunin eru veitt.

Kraumsverðlaunin eru veitt fyrir þær íslensku hljómplötur er þykja skara fram úr hvað varðar gæði, metnað og frumleika. Meðal þeirra listamanna sem hlotið hafa verðlaunin síðustu ár má nefna Ásgeir, Daníel Bjarnason, FM Belfast, GDRN, Hildur Guðnadóttir, Hjaltalín, Lay Low, Retro Stefson, Moses Hightower og Sóley.

Verðlaunaplöturnar í ár koma úr ýmsum áttum og spanna meðal annars þjóðlagaskotna popptónlist, drífandi teknó og gítargrúvað rokk – sem m.a. má heyra í verkum Elín Hall, Eva808 og Spacestation. Sú mikla gróska er ríkir hér á landi í rafskotinni og framúrstefnulegri popptónlist er sömueliðis áberandi á plötum ex.girls, Apex Anima (Unnur Andrea Einarsdottir) og Neonme (Salka Valdóttir úr Cyber og Reykjavíkurdætrum).

Kraumsverðlaunum er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita. Verðlaunin eru ekki bundin ákveðinni tónlistarstefnu og þeim fylgja engir undirflokkar. Alls hafa hátt í eitt hundrað listamenn og hljómsveitir hlotið verðlaunin fyrir plötur sínar frá því þau voru fyrst veitt árið 2008, flestir snemma á ferli sínum.

Það er Aurora velgerðarsjóður sem stendur að Kraumsverðlaununum. 

Kraumsverðlaunin 2023 hljóta:

  • Apex Anima – Elf F O
  • Elín Hall – Heyrist í mér?
  • Eva808 – Öðruvísi
  • Neonme – Premiere
  • Spacestation – Bæbæ
  • ex.girls – Verk

Eva808 (Eva Jóhannsdóttir) er að hljóta sín önnur Kraumsverðlaun, en hún fékk verðlaunin fyrst árið 2020 fyrir sína fyrstu breiðskífu; Saultry Venom. Fram að þessu hafa sex aðrir listamenn og hljómsveitir hlotið Kraumverðlaunin í tvígang; Retro Stefson (Montaña, 2008 og Retro Stefson, 2012), Mammút (Karkari, 2008 og Komdu til mín svarta systir, 2013), Hjaltalín (Terminal, 2009 og Enter 4, 2012), Dj flugvél og geimskip (Glamúr í geimnum, 2013 og Nótt á hafsbotni, 2015), Kælan Mikla (Kælan mikla, 2016 og Nótt eftir nótt, 2018) og Gugusar (listen to this Twice, 2020 og 12:48, 2022).