Svartfugl – ný smáskífa frá Myrkva

Tónlistarmaðurinn Magnús Thorlacius eða Myrkvi eins og hann kallar sig sendir í dag frá sér smáskífuna Svartfugl, þá fyrstu af fyrirhugaðri breiðskífu. Í Svartfugli nýtur Myrkvi aðstoðar Valdimars Kolbeins Sigurjónssonar kontrabassaleikara og Arnór Sigurðarsonar trommuleikara en sjálfur syngur Magnús og leikur á gítar, hljómborð og fiðlu. Arnar Guðjónsson annaðist upptökur og hljóðblöndun en um hljómjöfnun sá Sigurdór Guðmundsson. Hægt er að hlusta á lagið á helstu tónlistarveitum en hér er tengill á lagið á Spotify.

Myrkvi er listamannsnafn Magnúsar Thorlacius, sem leitar á nýjar slóðir með þessari nýjustu smáskífu sinni, Svartfugli. Lagið markar ákveðin vatnaskil en síðasta plata Myrkva, Early Warning, var samin með Yngva Holm og byggði á útsetningum fyrrum hljómsveitarmeðlima þeirra í Vio, þar sem tónlistaferill Magnúsar hófst. Sveitin sigraði Músíktilraunir árið 2014 og hlaut á sínum tíma tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Myrkvi leit fyrst dagsins ljós árið 2020 með lagi sem naut mikilla vinsælda, Sér um sig.