
Róbert Örn Hjálmtýsson (ljósm. Jónatan Grétarsson)
Tónlistarmaðurinn Róbert Örn Hjálmtýsson er látinn rétt tæplega fjörutíu og sjö ára gamall.
Róbert var Breiðhyltingur fram í fingurgóma en fæddur í Svíþjóð (5. júlí 1977) og bjó þar fyrstu ár ævi sinnar. Hann stundaði íþróttir á æskuárunum en á unglingsaldri tók tónlistin yfir og bassi varð aðal hljóðfæri hans þótt hann léki reyndar á mörg hljóðfæri.
Róbert vakti fyrst athygli í tónlistinni árið 2002 þegar hljómsveit hans, Hljómsveitin Ég gaf út sína fyrstu plötu en hún bar nafnið Skemmtileg lög, hún hafði að geyma tónlist eftir Róbert sem skilgreina mætti sem áheyrilegt „skrýtipopp“ með sérstakan hljóðheim, sem hefur verið einkenni tónlistar hans síðan. Næsta plata undir Ég-nafninu kom út 2005 og hét Plata ársins, sú skífa vakti verulega athygli og fékk góða dóma reyndar eins og allar plötur sveitarinnar. Lagið Eiður Smári Guðjohnsen naut þar nokkurra vinsælda en Róbert hafði samið þetta lag um þennan æskuvin sinn úr Breiðholtinu því hann hafði fjármagnað plötuútgáfuna. Lagið var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem lag ársins auk þess sem platan hlaut einnig tilnefningu sem plata ársins. Þriðja plata Hljómsveitarinnar ég – Lúxus upplifun kom út 2010 og enn komu tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, aftur sem plata ársins og nú einnig sem textahöfundur ársins en textar Róberts þykja afar frumlegir og skemmtilegir, platan hlaut jafnframt Kraumsverðlaun. Síðasta plata Hljómsveitarinnar Ég kom út 2011 undir titlinum Ímynd fíflsins og þótti með betri plötum ársins að mati gagnrýnenda og enn hlaut Róbert tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum textahöfundur ársins.
Róbert starfaði með fleiri hljómsveitum, árið 2007 starfrækti hann hljómsveit sem bar nafnið Liverpool og árið 2019 sendi hljómsveitin Spilagaldrar frá sér plötuna Kóngsbakki 7 en þar var á ferð sveit sem hann hafði starfrækt með vinum sínum á unglingsárunum, einnig höfðu þá komið út smáskífur með sveitinni. Hann starfrækti ennfremur einsmannssveitina PoPPaRoFT sem sendi frá sér plötuna Icelandic music for American market / Íslensk tónlist fyrir Ameríkumarkað en sú skífa kom út 2021.
Róbert kom einnig að öðrum tónlistartengdum verkefnum, hann var Sölva Jónssyni (Dölla) innan handar við gerð nokkurra platna, lék á ýmis hljóðfæri á þeim og gaf svo út síðustu plötu hans – Ef hið illa sigrar, árið 2021 eftir andlát Dölla. Róbert samdi einnig og flutti stuðningslag fyrir íslenska handboltalandslagið árið 2011 sem vakti nokkra athygli, og þess má geta að hann var meðal flytjenda á plötu Jóns Ólafssonar – Fiskar, sem kom út 2017 en þeir Jón áttu nokkurt samstarf.
Tónlist Róberts Arnar Hjálmtýssonar er öll aðgengileg á tónlistarveitunni Spotify og flesta texta hans má einnig finna á textasíðu Glatkistunnar.














































