Afmælisbörn 21. júní 2024

Guðmundur Óli Þorláksson

Í dag eru fimm tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Inga (Jónína) Backman sópran söngkona frá Akranesi er sjötíu og sjö ára gömul í dag. Inga hóf ekki söngnám fyrr en hún komst á fertugsaldur og lauk söngkennaraprófi árið 1988, en hefur síðar fengist einkum við kirkjulegan söng en einnig ljóða- og óperusöng. Hún hefur ennfremur sungið með fjölmörgum kórum, og þá líka einsöng, auk þess að starfa sem söngkennari og kórstjórnandi. Inga hefur gefið út tvær plötur með söng sínum en einnig sungið á nokkrum plötum annarra listamanna, s.s. Eddu Heiðrúnar systur sinnar.

Dr. Jón Viðar Sigurðsson sagnfræðingur og fyrrverandi poppskríbent er sextíu og sex ára gamall í dag. Jón Viðar skrifaði um tíma um tónlist í Þjóðviljanum en hefur fyrir löngu helgað sér önnur áhugamál, hann hefur starfað um árabil í Noregi.

Viðar Hákon Gíslason bassaleikari fagnar fimmtugs afmæli á þessum degi. Viðar hefur starfað með fjölda þekktra og óþekktra sveita og meðal þeirra má nefna Trabant, Funerals, Ó. Jónson & Grjóni, Púff, Motion boys, Quarashi, Traktor, Lone og Unun. Hann hefur einnig verið áberandi við hljóðupptökur og hefur aukinheldur leikið inn á fjölda platna annarra listamanna.

Guðmundur Gunnlaugsson trommuleikari er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi. Hann hefur leikið með ógrynni sveita í gegnum tíðina sem margar hverjar eru blústengdar, nú síðast GG blús en meðal annarra sveita Guðmundar má nefna Centaur (Kentár), Audio nation, Sixties, Gíslana, Fullt tungl, Kinkí, Jötunuxa, Money, Vírus, X-izt og Black cat bone. Þá má heyra trommuleik hans á plötum margra þessara sveita.

Að síðustu er hér nefndur Guðmundur Óli Þorláksson (1928-77) sem var annar Gautlandsbræðra og lék síðan einnig lengi með hljómsveitinni Gautum á Siglufirði. Guðmundur Óli (einnig kallaður Guðmundur Gauti) gaf út sólóplötu á sínum tíma en þekktasta lagið sem hann söng var Sem lindin tær, ásamt Karlakórnum Vísi á Siglufirði, hann söng einnig á plötu með Blönduðum kvartett frá Siglufirði en lagið Kveiktu ljós varð nokkuð vinsælt í flutningi þeirra.

Vissir þú að Hljóðfærahús Reykjavíkur var fyrsti íslenski hljómplötuútgefandinn?