Afmælisbörn 23. júní 2024

Una Torfa

Afmælisbörn dagsins í tónlistargeiranum eru eftirfarandi:

Kristján Freyr Halldórsson trommuleikari frá Hnífsdal er fjörutíu og níu ára gamall í dag. Kristján hefur leikið með ótal hljómsveitum, fyrst vestra en síðar á höfuðborgarsvæðinu. Meðal sveita hans má nefna Níkagagva group, Homebreakers, Geirfuglunum, Miðnes, Prinspóló, Reykjavík! og Dr. Gunna. Kristján hefur einnig komið að tónlist með öðrum hætti s.s. með tónleikahaldi og dagskrárgerð í útvarpi.

Tónlistarkonan Una Torfadóttir er tuttugu og fjögurra ára gömul í dag. Unu Torfa ættu flestir orðið að þekkja en hún hefur vakið mikla athygli síðustu árin með tónlist sína, lög eins og Í löngu máli, En, Flækt og týnd og einmana og Fyrrverandi hafa notið gríðarmikilla vinsælda en hún hefur verið að koma fram með frumsamið efni síðan hún var nítján ára.

Og þá á Erla Dóra Vogler óperusöngkona fjörutíu og eins árs afmæli á þessum degi. Erla Dóra kemur frá Egilsstöðum og hóf þar söngnám sitt en hún nam einnig í Reykjavík og Vín. Hún hefur komið bæði fram sem dægurlaga- og óperusöngkona, m.a. með hljómsveitinni Dægurlagadraumum, á fjölda tónleikum um land allt og erlendis og hefur haldið minningu Jórunnar Viðar á lofti. Erla Dóra sendi frá sér plötuna Víravirki árið 2010.

Vissir þú að Helgi Björnsson bjó um tíma í húsi á Ísafirði sem hann síðan söng um í laginu Mér finnst rigningin góð?