Dagskrá Innipúkans tilbúin

Tónlistarhátíðin Innipúkinn verður haldin í 21. sinn í miðborg Reykjavíkur um verslunarmannahelgina, dagana 2.-4. ágúst. Heildardagskrá hátíðarinnar er nú klár og birt hér með nokkrum nýjum viðbótum við prógrammið.

Páll Óskar og Skrattar koma í fyrsta sinn fram saman á sviði á opnunarkvöldi Innipúkans í ár, auk þess að koma fram í sitthvoru lagi á hátíðinni. Meðal annarra listamanna og hljómsveita sem koma fram á tveimur sviðum hátíðarinnar í ár eru Bjartar sveiflur, ex.girls, Hatari, Hasar, Hipsumhaps, Inspector Spacetime, Una Torfa og Vök.

Þeir listamenn sem nú bætast í hópinn, og ekki hefur verið tilkynnt um áður, eru; Kælan Mikla, Bashar Murad, Sunna Margrét og Apex Anima & FRZNTE.

Innipúkinn var fyrst haldin árið 2002 í Iðnó við Reykjavíkutjörn og hefur verið haldin árlega síðan, ef frá eru talin tvö mögur kóvid ár. Hátíðin hefur farið fram í Kvosinni, úti á Granda og síðustu tvö ár í Gamla bíó, Röntgen og Ingólfsstræti þar sem hátíðin fer fram í þriðja sinn í ár.

Aðaldagskrá Innipúkans fer að sjálfsögðu fram innandyra eins og hefð er fyrir, en einnig verður boðið upp á hátíðarstemningu á útisvæði hátíðarinnar í Ingólfsstræti – á milli tónleikastaðana – alla helgina. Þar verður m.a. boðið upp á markaði, plötusnúða og gómsæta veitingasölu.

Margir af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar hafa komið fram á Innipúkanum síðustu tuttugu ár og má þar nefna Bjartmar Guðlaugsson, Bríet, Daða Frey, Dr. Gunna, Emmsjé Gauta, Eyjólf Kristjánsson, FM Belfast, GDRN, Hjaltalín, Hjálma, Lay Low, Möggu Stínu, Megas, Mínus, Mugison, Of monsters and men, Ólaf Arnalds, Ómar Ragnarsson, Ragga Bjarna, Siggu Beinteins, Sóley, Svölu, Trabant og Þú & ég með Helgu Möller í broddi fylkingar.

Eftirfarandi tónlistarfólk og hljómsveitir koma fram:

  • Apex Anima & FRZNTE
  • Bashar Murad
  • Bjartar sveiflur
  • ex.girls
  • Hatari
  • Hipsumhaps
  • Hekla
  • Hermigervill
  • Inspector spacetime
  • Kælan mikla
  • Kött Grá Pjé & Fonetik simbol
  • Lúpína
  • Páll Óskar
  • Skrattar
  • Sunna Margrét
  • Una Torfa
  • Úlfur Úlfur
  • Volruptus
  • Vök

Miðasala á hátíðina fer fram á tix.is. Armband á hátíðina gildir alla helgina. Einnig er hægt að kaupa miða á stök kvöld hátíðarinnar. Síðustu ár hefur verið uppselt á Innipúkann – og því er um að gera að tryggja sér miða í tíma.

Miðaverð á Innipúkann er eftirfarandi:

– Þriggja daga hátíðarpassi: kr. 10.990 (kr. 9.990 – tilboðsverð fram yfir þessa helgi).
– Kvöldpassi fyrir stök tónleikakvöld: kr. 5.990.

Það er alltaf gott veður á Innipúkanum – og bara gaman!