Afmælisbörn 4. september 2024

Björgvin Gíslason

Fimm tónlistartengd afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar í dag en öll teljast þau vera stór nöfn:

Fyrstan skal telja Hörð Torfason söngvaskáld en hann er sjötíu og níu ára á þessum degi. Á þriðja tug platna hafa komið út með Herði og hafa mörg þeirra orðið þekkt, þeirra á meðal má nefna Þú ert sjálfur Guðjón, Ég leitaði blárra blóma, Litli fugl og Brekkan, en mörg laga hans má heyra á tónleikaplötu sem gefin var út honum til heiðurs 2006. Hörður hefur um áratuga skeið verið í fremstu röð fyrir baráttu samkynhneigðra hér á landi.

Björgvin Gíslason gítarleikari hefði átt afmæli í dag en hann lést fyrr á þessu ári. Hann var eitt af undrabörnunum í tónlistinni, að mestu sjálfmenntaður og lék á flest hljóðfæri þótt strengjahljóðfæri væru hans aðalverkfæri. Björgvin lék með flestum hljómsveitum sem eitthvað kvað að á áttunda áratugnum og ógrynni annarra sveita, hér eru aðeins fáeinar upptaldar; Poker, Náttúra, Zoo, Pelican, Opus 4, Sjálfsmorðssveitin, Paradís og Pops. Auk þess gaf hann út nokkrar sólóplötur sem innihalda þekkt lög s.s. Afi (sungið af Björk) og L.M. Ericsson.

Hildur (Ingveldardóttir) Guðnadóttir Óskarsverðlaunahafi á fjörutíu og tveggja ára afmæli í dag. Nafn hennar þekkja flestir en hún er í dag margverðlaunað tónskáld og hefur samið tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, leikhús, ballet o.fl. Hér áður söng hún og lék á selló og fleiri hljóðfæri með hljómsveitum eins og Woofer, Tónaflokknum, Mósaík, Rúnk, Stórsveit Nix Noltes og múm, og hefur komið við sögu á fjölda útgefinna platna auk nokkurra sólóplatna.

Súðvíkingurinn Örn Elías Guðmundsson eða bara Mugison, á fjörutíu og átta ára afmæli í dag. Mugison hefur sent frá sér fjöldann allan af sólóplötum og enn fleiri lög sem slegið hafa í gegn. Hann hafði að mestu flutt efni sitt á ensku þar til síðasta plata hans kom út (Haglél (2011)) en sú plata sló algjörlega í gegn og seldist í um 30.000 eintökum. Þótt hann sé fyrst og fremst sólóisti hefur hann verið í ýmsum hljómsveitum og samstarfsverkefnum eins og Dísel Sæmi, Joseph and Henry Wilson Limited established 1833, Unaðsdalur, Cod og Áhöfnin á Húna II.

Borgfirðingurinn Númi Þorbergs(son) átti einnig afmæli á þessum degi. Númi (fæddur 1911) var einn þekktasti textahöfundur Íslands á síðustu öld og þekkja flestir texta sem hann samdi, meðal þeirra eru Nú liggur vel á mér, Í landhelginni, Laus og liðugur (Sigurður var sjómaður) og Landleguvalsinn. Númi gegndi einnig stöðu dansstjóra á skemmtistöðum borgarinnar á árum áður. Hann lést 1999.

Vissir þú að Bragi Hlíðberg nam um tíma harmonikkuleik vestur í Bandaríkjunum?