Afmælisbörn 5. janúar 2025

Davíð Þór Jónsson

Í dag eru sex tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Davíð Þór Jónsson er sextugur í dag og fagnar því stórafmæli, hann er fremur þekktur sem skemmtikraftur, fjölmiðlamaður, guðfræðingur og nú prestur, annar Radíus bræðra og sitthvað fleira en að vera tónlistarmaður. Hann var þó söngvari hljómsveitarinnar Faríseanna sem gaf út plötu 1996, samdi þar bæði lög og texta, en hefur aukinheldur samið fjölmarga söngtexta fyrir leikhús og aðra tónlistarmenn.

Kórstjórnandinn og organistinn Halldór Þórðarson fagnar í dag áttatíu og sjö ára afmæli sínu. Halldór hefur í gegnum tíðina verið öflugur í tónlistarlífi Dalamanna sem kórstjóri og organisti í fjölmörgum kirkjum en hann hóf tónlistarferil sinn sem harmonikkuleikari og hefur verið öflugur í félagsstarfi þeirra í Dölunum. Hann var jafnframt lengi tónlistarkennari og -skólastjóri í Búðardal.

Þá á einnig Ægir Sindri Bjarnason trommuleikari afmæli en hann er þrjátíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Hann hefur lamið trommusett með fjölda hljómsveita og meðal þeirra eru hér nefndar Dead herring, World narcosis, Logn, Klikk og Electric playground.

Gyða Valtýsdóttir sellóleikari, tónskáld og margt annað er fjórða afmælisbarn dagsins en hún er fjörutíu og þriggja ára gömul í dag. Gyða sem vann nýlega til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs vakti fyrst athygli með hljómsveitinni múm og hefur einnig starfað með kammerhópnum Krumma, en hún hefur jafnframt leikið á plötum fjölda annarra tónlistarmanna og hljómsveita s.s. Megasi, Slowblow, Úlfi Hanssyni og Kimono. Gyða hefur aukinheldur sent frá sér sólóplötur og starfað við kvikmyndatónlist.

Kristín Anna Valtýsdóttir píanóleikari, söngkona og tónskáld, tvíburasystir Gyðu á auðvitað einnig þennan afmælisdag og er því líka fjörutíu og þriggja ára gömul. Hún starfaði einnig með hljómsveitinni múm og hefur starfað undir nafninu Kría Brekkan og gefið út nokkrar plötur undir því aukasjálfi, þá hefur hún starfað með Stórsveit Nix Noltes og komið við sögu á plötum Slowblow, Skúla Sverrissonar og fjölda annarra listamanna auk þess að hafa gefið út sólóefni.

Að lokum er hér nefndur Hilmar Arnar Hilmarsson gítarleikari sem einnig átti þennan afmælisdag en hann lést árið 1986. Hilmar Arnar (fæddur 1946) lék með nokkrum bæði þekktum og óþekktum hljómsveitum hér fyrir margt löngu og hér má nefna sveitir eins og Sóló, Sextett Jóns Sigurðsson og J.J. Quintet.

Vissir þú að Jógvan Hansen sigraði X-factor keppni Stöðvar 2 árið 2007?