Iceland Airwaves opinberar í dag fyrstu listamennina sem munu koma fram á hátíðinni í Reykjavík, dagana 6. til 8. nóvember 2025. Hátíðin tilkynnir í dag 19 íslenska listamenn og 16 erlenda, þar á meðal rappstjörnuna ian og TikTok stjörnuna Kenya Grace.
Rapparinn ian, sem er frá Dallas í Bandaríkjunum, sló í gegn árið 2024 með mixteipinu Valedictorian sem fór eins og eldur í sinu um netmiðla og gerði hann að einni athyglisverðustu rödd hip-hop heimsins í dag. Lagið Magic Johnson sló svo rækilega í gegn og er komið yfir 100 milljónir spilana á Spotify.
Enska söngkonan, lagahöfundurinn og útsetjarinn Kenya Grace mun einnig heiðra svið Iceland Airwaves. Hún er þekktust fyrir smellinn Strangers sem var eitt mest notaða og spilaða lag TikTok á síðasta ári og nálgast einn milljarð spilana á Spotify. Einnig mun hljómsveitin Fat Dog frá London mæta en hljómsveitin hefur hlotið mikið lof fyrir taumlausa sviðsframkomu og frumraun sína WOOF sem kom út í fyrra.
Iceland Airwaves er þekkt fyrir að vera stökkpallur fyrir bæði innlent og alþjóðlegt tónlistarfólk frá öllum straumum og stefnum. Í dag eru kynntir til leiks fjölmargir listamenn á uppleið frá öllum heimshornum og má þar nefna skáldið og útsetjarann Antony Szmierek frá Manchester, póst-pönksveitin DEADLETTER frá suður London, hin einstaka jasmine.4.t sem er á mála hjá Saddest Factory Records, hin tilraunakennda The Orchestra (For Now) og ögrandi klúbbgoðsögnin Babymorocco.
Iceland Airwaves býður einnig velkomna popphetjuna ratbag frá Kanada, litháíska strandarpopps dúettinn Superkoloritas, lagahöfundinn og söngkonuna Jelena Ciric með sína einstöku serbnesk-kanadísk-íslensku þjóðlagatóna og raf-popp dúettinn Colt frá Frakklandi.

Daniil er meðal listamanna hátíðarinnar í ár
Hátíðin leggur jafnan mikið uppúr því að gefa gestum tækifæri til að upplifa það besta sem íslenskt tónlistarlíf hefur uppá að bjóða – allt frá rótgrónum goðsögnum til upprennandi listamanna. Í ár fagnar hátíðin fjölbreytni íslenskrar tónlistar með því að taka á móti tónlistar- og leikkonunni Elínu Hall og trip-hop-skotnum tónum Sunnu Margrétar. Iceland Airwaves mun einnig hýsa hinn orkumikla popp- og raftónlistar dúett Milkywhale, hið virta tónskáld, hljómborðsleikara og útsetjara Magnús Jóhann auk tilraunakenndu hávaða pönksveitarinnar Tófu. Einnig stíga á stokk rappararnir Daniil, Floni og Izleifur– ásamt mörgum fleirum.
Iceland Airwaves leggur ríka áherslu á að styðja við framtíð íslenskrar tónlistar og í samræmi við það mun hópur valinna listamanna hátíðarinnar í ár ferðast til Austin, Texas í næsta mánuði til að koma fram á South by Southwest (SXSW). Þar munu Elín Hall, Sunna Margrét, lúpína og superserious koma fram á sérstökum Iceland Airwaves kynningartónleikum, sem eru haldnir í samstarfi við Iceland Music, Business Iceland og Record in Iceland.
Nánari upplýsingar um Iceland Airwaves, dagpassar og hátíðarpassar eru fáanlegir á www.icelandairwaves.is.














































