
Anna Vilhjálmsdóttir
Söngkonan Anna Vilhjálms er látin, á áttugasta aldursári en hún hafði átt við veikindi að stríða síðustu árin.
Anna Vilhjálmsdóttir var fædd 14. september 1945 og var hún ein af dáðustu dægurlagasöngkonum sjöunda áratugarins. Söngferill hennar hófst með J.E. kvintettnum árið 1961 þegar hún var aðeins 16 ára gömul en í kjölfarið komu sveitir eins og Hljómsveit Gunnars Ormslev, Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar og Neo áður en hún söng lagið Sjö litlar mýs ásamt Ómari Ragnarssyni sem kom út á plötu 1963, hún vakti einnig verulega athygli þegar hún gekk til liðs við Hljómsveit Svavars Gests og söng inn á plötu lög eins og Ef þú giftist og Heimilisfriður ásamt Berta Möller, sem urðu feikivinsæl. Þá söng hún einnig með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar og gerði þar lög eins og Ég bíð við bláan sæ og Það er bara þú ódauðleg en þau lög söng hún með Vilhjálmi Vilhjálmssyni.
Árið 1969 stofnaði Anna hljómsveit í eigin nafni en þá var fátítt að hljómsveitir væru kenndar við söngkonur, Hljómsveit Önnu Vilhjálms hlaut þó nýtt nafn stuttu síðar þegar sveitin fékk verkefni uppi á Keflavíkurflugvelli en þar starfaði hún undir nafninu Experiment. Anna kynntist amerískum manni á Vellinum og fluttist til Bandaríkjanna þar sem hún bjó um nokkurra ára skeið en þar fékkst hún nokkuð við að syngja og heimildir herma að lag með henni hafi komið út á kántrísafnplötu, einnig gæti hafa komið út smáskífa með henni ytra.
Anna kom aftur heim til Íslands undir lok áttunda áratugarins, hóf þegar að syngja á nýjan leik og söng með miklum fjölda hljómsveita á dansstöðum höfuðborgarsvæðisins, hér má nefna nokkrar sveitir eins og Thaliu, Dansbandið, Flækingana, Hljómsveit Hilmars Sverrissonar, Galabandið og Hljómsveit Önnu Vilhjálms hina síðari en hún rak um það leyti veitingastaðinn Næturgalann í Kópavogi einnig. Þá kom hún oft fram sem gestasöngvari með fjölmörgum öðrum hljómsveitum og tók virkan þátt í tónlistarsýningum á Broadway og fleiri stöðum, með úrvali söngvara frá gullaldartímum rokksins og öðrum tímabilum.
Anna Vilhjálms sendi frá sér eina sólóplötu, Frá mér til þín en hún kom út árið 1991 og vakti töluverða athygli, einkum lagið Fráskilin að vestan, sem ómaði á útvarpsstöðunum á sínum tíma og varð eins konar einkennislag hennar í seinni tíð. Hún söng jafnframt inn á nokkrar plötur sem gestasöngvari og bakraddasöngkona í gegnum tíðina.
Anna hætti að syngja opinberlega eftir að hún greindist með lungnaþembu en hún átti við þau veikindi að stríða síðustu árin og lést fyrr í þessari viku, hún hafði verið búsett á Hrafnistu í Hafnarfirði um skeið.














































