Afmælisbörn 11. maí 2025

Jóhann Hjörleifsson

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar á þessum degi:

Jóhann (Óskar) Hjörleifsson trommu- og slagverksleikari með meiru er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag. Jóhann var trommuleikari Sálarinnar hans Jóns míns en hefur aukinheldur leikið með sveitum eins og Jagúar, Rokkabillíbandi Reykjavíkur, Stórsveit Reykjavíkur, Trix, Ullarhöttunum, Tríó Björns Thoroddsen og Straumum & Stefáni. Session-mennska hefur þó öðru fremur einkennt feril trommuleikarans og eru þær fáar sólóplöturnar sem Jóhann hefur ekki verið beðinn um að leika inn á.

Sunna Gunnlaugsdóttir djasspíanisti og tónskáld á einnig afmæli í dag en hún er fimmtíu og fimm ára gömul. Sunna Gunnlaugs nam fræði sín m.a. í Bandaríkjunum og bjó þar lengi og starfaði, hún hefur sent frá sér fjölda sólóplatna og í nafni eigin djasstríós og starfaði jafnframt með fjölda sveita heima á Íslandi hér áður s.s. LOS, Tónskröttunum, Tríói Jennýjar, Kvintett Scott McLemore og Undir tunglinu.

Og þriðja afmælisbarn dagsins er hip hop tónlistar- og myndlistarmaðurinn Charlie D eða Dj Demo eins og hann kallaði sig eða Karl Kristján Davíðsson eins og hann heitir fullu nafni, hann fagnar í dag fjörutíu og átta ára afmæli sínu. Þekktasta sveit Karls Kristjáns er auðvitað Subterranean en hann var einnig í sveitum eins og Kreation Krew og Tríói Óla Skans auk þess að starfa með hinum og þessum hip hop tónlistarmönnum.

Vissir þú að hljómsveitin Á túr sendi frá sér plötuna Píka árið 1997 og fylgdi dömubindi með í kaupunum?