Afmælisbörn 25. maí 2025

Kristjana Stefánsdóttir

Fjögur afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar á þessum degi:

Kristjana Stefánsdóttir söngkona frá Selfossi er fimmtíu og sjö ára gömul á þessum degi. Kristjana sem nam söng hér heima og síðar í Hollandi, hefur gefið út nokkrar plötur með djasssöng sínum, ýmis ein eða í félagi við aðra, en hún söng á árum áður með ballhljómsveitum á Suðurlandi á borð við sveitir eins og Karma, Stress, Lótus og Mána.

Jóel (Kristinn) Pálsson saxófónleikari á fimmtíu og þriggja ára afmæli í dag. Jóel hefur leikið með óteljandi djasskvartettum og –tríóum en auk þess með sveitum eins og Milljónamæringunum, Stórsveit Reykjavíkur og Atlantshaf(sbandalaginu). Hann hefur einnig þótt ómissandi á plötum hljómsveita og annarra flytjenda þegar skreyta hefur þurft lög með rörablæstri.

Söngkonan Margrét (Júlíana) Sigurðardóttir söngkona, píanó- og fiðluleikari á fimmtíu og tveggja ára afmæli á þessum degi. Margrét spratt fram á sjónarsviðið bráðung þegar hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna og í kjölfarið hóf hún að syngja við alls kyns tækifæri og með hljómsveitum á borð við Jökulsveitinni, Burkna, Yrju, Ómum, Blush og Limbó en tók einnig þátt í uppfærslum á söngleikjum.

Og að lokum er hér nefnd kórstjórnandinn og tónmenntakennarinn Kristín Sæunn Pjetursdóttir. Kristín fæddist vestur í Bolungarvík á þessum degi árið 1943 en bjó nánast alla tíð í Reykjavík, hún stjórnaði einkum söngkórum eldri borgara og hér má nefna Garðakórinn, Söngvini og Söngfélag Félags eldri borgara í Reykjavík (FEB) en síðast talda kórnum stjórnaði hún um langt árabil. Kristín lést árið 2021.

Vissir þú að Megas hefur komið fram á tónleikum með Stuðmönnum?