
Gísli Þór Guðmundsson
Í dag eru afmælisbörn Glatkistunnar fimm:
Jón Þór Hannesson framleiðandi fagnar áttatíu og eins árs afmæli í dag. Hann hóf sinn tónlistartengda feril með rekstri ólöglegrar útvarpsstöðvar 1962 ásamt Pétri Steingrímssyni og var handtekinn fyrir uppátækið. Jón Þór var einnig í hljómsveitinni Tónum um miðjan sjöunda áratuginn áður en hann sneri sér upptökufræðum, þar sem hann tók upp margar hljómplötur, varð síðar einn stofnenda og eigenda Hljóðrita í Hafnarfirði auk þess sem hann rak Hljómplötuútgáfuna samhliða störfum hjá Ríkissjónvarpinu. Síðar varð hann framleiðandi í auglýsingagerð og leiðandi afl í þeim fræðum hérlendis.
Kristinn T. Haraldsson eða Kiddi rót eins og hann er iðulega nefndur, er sjötíu og eins árs gamall á þessum degi. Hann er þekktastur fyrir framlag sitt sem rótari hljómsveita, meðal annars fyrir Júdas. Kiddi komst einnig í fréttirnar síðar sem ráðherrabílstjóri og rekstraraðili veitingahússins Kaffi Kidda rót.
Bragi Einarsson (fæddur 1930) blásari átti þennan afmælisdag einnig en hann var þekktur saxófón- og klarinettuleikari og lék með fjölda hljómsveita af ýmsu tagi á árum áður, hér má nefna Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar, Hi gees (Hljómsveit Einars Loga), Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar, Trad kompaníið, Hljómsveit Þorsteins Eiríkssonar, Þ.Ó. kvintettinn og Sveiflusextettinn svo dæmi séu tekin. Bragi lést árið 1994.
Hildur Tryggvadóttir sópran söngkona er sextíu og sjö ára gömul á þessum degi. Hildur var áberandi í norðlensku sönglífi þar sem hún söng margoft einsöng með hinum og þessum kórum, hér má nefna Kvennakórinn Lissý, Söngfélagið Sálubót og hina ýmsu kirkju- og karlakóra nyrðra. Þá tók þún þátt í ýmsum tónlistarviðburðum öðrum fyrir norðan s.s. óperu- og tónleikauppfærslum á ýmsum verkum.
Og að síðustu er hér nefndur umboðsmaðurinn Gísli Þór Guðmundsson eða Gis von Ice eins og hann var kallaður en hann lést árið 2023. Gísli Þór sem var fæddur á þessum degi árið 1961, bjó og starfaði í Bretlandi en hann annaðist umboðsmennsku fyrir hljómsveitir og tónlistarfólk á borð við Vök, Hatara, For a minor reflection og Lay Low svo fáein dæmi séu nefnd. Hann hlaut ásamt Önnu Hildi Hildibrandsdóttur tónlistarviðurkenninguna Lítinn fugl árið 2024.
Vissir þú að Aron Can og Bríet voru saman í hljómsveitinni Epik sem keppti í Músíktilraunum 2015?

