QUACK – ný breiðskífa gugusar

Gugasar sendir í dag frá sér níu laga plötu sem hefur hlotið nafnið QUACK

QUACK er dansplata sem fjallar um ást, rugling og allt þetta sem gerist á milli línanna í samböndum. Þegar hlutirnir eru óljósir, fallegir og stundum óþægilegir. Þú vilt hreyfa þig, jafnvel þegar þú veist ekki alveg hvernig þér líður.

“Ég gerði þessa plötu á örfáum vikum, alveg frá grunni – pródúseraði, mixaði og masteraði sjálf. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé alfarið um allt ferlið, og það skilaði sér í einlægari og hráari útgáfu af mér. Ég samdi plötuna í Silkeborg, á miðju Jótlandi, þar sem ég gat einbeitt mér algjörlega að tónlistinni. ”- gugusar.

Að baki listamannsnafninu gugusar stendur Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir, sem hóf feril sinn aðeins 13 ára með því að semja kvikmyndatónlist. Hún þróaði síðar sinn einstaka stíl yfir í rafpopp og hefur tekið upp og útsett tvær plötur sem báðar voru tilnefndar sem Plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. QUACK er nýjasta plata gugusar sem hún gerði alein frá fyrstu nótu að masteringu og plötuumslagi.

“Ég leyfði mér að vinna hratt þegar ég gerði þessa plötu. Var ekki stoppa og pæla of mikið, bara treysta eyranu, líkamanum og tilfinningunni.”– gugusar.

Framundan hjá gugusar er útgáfufögnuður í lok júlí á AUTO og svo mun gugusar vera að fylgja eftir plötunni með framkomum, bæði á Íslandi og erlendis og eflaust semja ófá lög þess á milli.

Platan er nú komin á helstu tónlistarveitur og hér má hlusta á hana.