
Hafdís Bjarnadóttir
Í dag eru þrjú afmælisbörn í tónlistargeiranum skráð hjá Glatkistunni:
Skagamaðurinn Jón Trausti Hervarsson fagnar stórafmæli en hann er áttræður í dag, hann er kunnastur fyrir framlag sitt með hljómsveitinni Dúmbó sextett og Steina frá Akranesi sem starfaði í um tvo áratugi en hann var einn þeirra sem var allan tímann í sveitinni. Jón Trausti gegndi stöðu saxófónleikara og söngvara í Dúmbó en lék einnig eitthvað á gítar. Dúmbó og Steini starfaði ekki alveg samfleytt og í nokkrum pásum sveitarinnar lék Jón Trausti með Skagasveitunum Kútter Max, EF kvartettnum og Rapsódíu.
Mosfellingurinn Karl Tómasson (Kalli Tomm) er sextíu og eins árs á þessum degi. Karl hefur starfað sem trommuleikari með ótal sveitum í gegnum tíðina, þekktastar þeirra eru auðvitað Gildran, Gildrumezz og 66 (Sextíu og sex) sem allar hafa gefið út plötur en einnig má nefna ýmsa undanfara Gildrunnar s.s. Venus, Party, Cosinus og Pass. Þá hefur Karl sent frá sér plötur í eigin nafni.
Þriðja afmælisbarn dagsins er Hafdís Bjarnadóttir gítarleikari en hún fagnar fjörutíu og átta ára afmæli sínu á þessum degi. Hafdís, sem hefur gefið út nokkrar sólóplötur hefur einnig starfað með fjölmörgum öðrum listamönnum og í hljómsveitum eins og Gröm, Kuran Kompaní, Moskvitch, dúettnum Sandísi, Þel og The Craters band auk þess að starfrækja djasstríó og aðrar sveitir.














































