Anya Shaddock með nýja smáskífu

Anya Shaddock sendir í dag frá sér nýja smáskífu sem ber heitið „Útlagi“. Lagið er hrá og tilfinningaþrungin frásögn af sambandsslitum, vinamissi og þeirri reynslu að verða viljandi gerð að sökudólgi í sögu sem er ekki sögð af réttlæti heldur ótta. „Útlagi“ fangar þá óbærilegu tilfinningu þegar einhver sem stóð manni nær byrjar að endurskrifa söguna og sannfæra aðra um að þú sért vandamálið – á meðan þú stendur ein eftir með sannleikann.

„Litla Anya átti stóran part í þessu lagi, því þessi atvik og þessi sambönd rifu upp gömul bernskusár og með því tók ég tækifærið, leitaði til sálfræðings og vann mikið í sjálfri mér. Þaðan kemur lagið“ segir Anya um tilurð lagsins.

Anya semur lag og texta, og sér ein um allan flutning – söng og hljóðfæri. Hún leikur á píanó, gítar, bassa og melodiku og skapar áhrifaríkan hljóðheim með sterku tilfinningalegu ívafi. Julian Golabek sér um hljóðblöndun og Bjarki Hallbergsson um hljóðjöfnun.

„Útlagi“ er áhrifamikil og persónuleg yfirlýsing um að lifa af, standa upprétt og afturkalla söguna sína.

Anya Shaddock er tuttugu og þriggja ára gömul, fædd í Bandaríkjunum en uppalin á Fáskrúðsfirði. Hún vakti fyrst athygli árið 2017 þegar hún sigraði Samfés söngvakeppnina með frumsömdu lagi og svo Nótuna síðar sama ár. Hún gaf út sína fyrstu smáskífu – Sweet love, árið 2022 og ári síðar sendi hún frá sér smáskífuna Með von um nýjan dag, ásamt dirb og BNGRBOY, það sama ár var hún meðal keppenda í Idol stjörnuleitinni og komst þar í topp 18. Á síðasta ári kom út fyrsta breiðskífa hennar – Inn í borgina.

Nýja lagið er að finna á tónlistarveitum og má heyra hér.