
Hrólfur Jónsson
Í dag eru þrjú afmælisbörn skráð hjá Glatkistunni:
Reynir Gunnarsson saxófónleikari úr Dúmbó og Steina frá Akranesi er sjötíu og átta ára gamall á þessum degi. Reynir kom auðvitað við sögu á plötum Dúmbós en hefur lítið fengist opinberlega við tónlist allra síðustu árin, saxófónleik hans má þó heyra í söngleiknum Hunangsflugur og villikettir sem Grundaskóli á Akranesi setti á svið en plata kom út því tengt.
Þá á óperusöngkonan Sólbjörg Björnsdóttir fjörutíu og þriggja ára afmæli í dag. Sólbjörg sem kemur upphaflega frá Akureyri nam söng og píanóleik hér heima á Íslandi, í Bretlandi og Hollandi en hún hefur búið í síðast nefnda landinu hin síðustu ár. Hún hefur sungið með ýmsum kórum og í óperuuppfærslum, og hefur sungið á ótal tónleikum hér heima og erlendis.
Og að síðustu er hér nefndur Hrólfur Jónsson sem fagnar sjötíu og eins árs afmæli sínu á þessum degi. Hrólfur sem var lengi slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins hefur starfað með nokkrum hljómsveitum og hér má nefna Borgarbandið, Eldbandið, 13 tungl og Tríó Tryggva Pálssonar en hann hefur einnig sent frá sér sólóplötur, m.a. í samstarfi við son sinn.














































