
Sighvatur Sveinsson
Í dag eru fjögur tónlistartengd afmælisbörn á lista Glatkistunnar:
Elmar Gilbertsson tenórsöngvari er fjörutíu og átta ára gamall á þessum degi. Hann er einn af fremstu söngvurum landsins og nam söng í Hollandi en hann hefur starfað þar og víðar í Evrópu. Elmar er líkast til hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í óperunni Ragnheiði en hann hefur auðvitað sungið í ótal óperuuppfærslum og tónleikum í gegnum tíðina hér heima og erlendis. Hann hefur bæði hlotið Grímuverðlaun og verið kjörinn söngvari ársins flokki sígildrar/samtímatónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Hilmar J. Hauksson átti afmæli á þessum degi en hann lést árið 2007. Hilmar sem var fæddur árið 1950, var kunnur innan þjóðlagatónlistargeirans en hann starfaði með sveitum eins og Hrími og Hvísli sem báðar létu að sér kveða á sínum tíma m.a. á erlendum þjóðlagahátíðum, hann lék einnig með hljómsveitum eins og Náttfara, Íslenska búsúkí-tríóinu, Babýlon og Bra$$ en sú síðast talda gaf út plötu rétt eins og Hrím. Hilmar kom jafnframt að félags- og baráttumálum tónlistarmanna.
Tónlistarmaðurinn Sighvatur Sveinsson er áttatíu og fimm ára á þessum degi. Sighvatur lék á árum áður á gítar í hljómsveitum eins og Hljómsveit Karls Jónatanssonar, Hljómsveit Ásgeirs Sverrissonar og Hrókum en starfrækti einnig lengi eins manns sveitina Hrókur alls fagnaðar þar sem hann lék á hljómborð og harmonikku auk gítars.
Þá fagnar Haukur Viðar Alfreðsson fjörutíu og sex ára afmælisdegi sínum í dag. Haukur Viðar hefur sungið og leikið á gítar og bassa í fjölda hljómsveita en þekktust þeirra eru Morðingjarnir og Vígspá, einnig má nefna sveitir eins og Leather beezt, Dáðadrengir og Hellvar. Þá er hann einn þeirra sem halda úti hlaðvarpinu Bestu plötunni.














































