Kvikmyndatónlist á Íslandi [annað] (1950-)

Kvikmyndir eiga sér ekki mjög langa sögu á Íslandi, og því síður kvikmyndatónlist. Það hefur þó aukist á síðustu árum að kvikmyndagerðarmenn hafi lagt metnað sinn í að vinna tónlist við myndir sínar og um leið lagt á það áherslu að tónlistin sé gefin út samhliða sýningu myndanna.

Hér verður einungis stiklað á stóru um þær myndir sem hafa einhverja tónlistarlega tengingu og verður sjálfsagt bætt inn í þær eyður sem kunna að vera í umfjölluninni, með tímanum.

Hér ber fyrst að nefna myndina Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason, sem frumsýnd var 1950 en tónlistina við hana samdi Jórunn Viðar, sú tónlist hefur þó aldrei komið út á plötu. Það var að öllum líkindum í fyrsta skiptið á Íslandi sem tónlist var sérstaklega samin fyrir kvikmynd. Þóra Borg Einarsdóttir, Jón Aðils og fleiri léku helstu hlutverk myndarinnar.

Næst er að telja kvikmyndina 79 af stöðinni (Pigen Gogo) frá 1962, með þau Kristbjörgu Kjeld og Gunnar Eyjólfsson í aðalhlutverkum en Eric Balling leikstýrði. Um eiginlega kvikmyndatónlist er varla hægt að ræða hér en titillag hennar, 79 af stöðinni (Vegir liggja til allra átta), flutt af Elly Vilhjálms varð feikivinsælt og kom út á smáskífu með henni og síðar á fjölmörgum safnplötum. Með sanni má kalla þetta fyrsta íslenska kvikmyndalagið.

Elly var aftur á ferðinni með lagið Sveitin milli sanda úr samnefndri heimildamynd Ósvaldar Knudsen frá 1965, lagið kom út á smáskífu en það er eftir Magnús Blöndal Jóhannsson. Sá annaðist tónlistina í myndinni auk tveggja annarra mynda frá sama ári, Surtur fer sunnan og Svipmyndir. Sú tónlist hefur þó ekki komið út á plötum.

Ekki verður hjá því komist að nefna stuttmyndina Umbarumbamba (1965) eftir Reyni Oddsson en hljómsveitin Hljómar (eða Thors Hammer eins og þeir kölluðu sig þar) var þar í aðalhlutverki. Myndin hafði verið hugsuð til að koma sveitinni á framfæri erlendis en það fór lítið fyrir því. Tónlistin (alls níu lög) komu út á þremur smáskífum sveitarinnar.

Myndirnar Morðsaga (1977) eftir Reyni Oddsson og Land og synir (1980) Ágústs Guðmundssonar eru ómissandi hluti af íslenska kvikmyndavorinu en tónlistin í þeim skipar reynar ekki stóran sess. Tónlistin í síðarnefndu myndinni er eftir Gunnar Reyni Sveinsson.

Vorið 1979 var fjölskyldumyndin Veiðiferðin frumsýnd en tveggja laga plata með tónlist úr myndinni kom út. Annað lagið, Eitt lítið andartak, flutt af Pálma Gunnarssyni varð vinsælt en Magnús Kjartansson samdi bæði lögin. Þetta var fyrsta íslenska platan sem hafði eingöngu að geyma tónlist úr kvikmynd. Sigurður Karlsson, Sigríður Þorvaldsdóttir og fleiri léku helstu hlutverkin í Veiðiferðinni.

Árið 1980 var fyrsta mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Óðal feðranna sýnd með Jakob Þór Einarssyni og Hólmfríði Þórhallsdóttur í aðalhlutverkum. Ekki var gefin út eiginleg plata með tónlist úr myndinni en Björgvin Halldórsson gaf út smáskífu með laginu Sönn ást en það naut mikilla vinsælda um sumarið. Tvö önnur lög úr myndinni fylgdu með á plötunni. Tónlistin var eftir Gunnar Þórðarson og Magnús Eiríksson.

Stuttmyndin Feilpústið, gerð af nokkrum nemendum Flensborgarskóla í Hafnarfirði, leit dagsins ljós sumarið 1980 en Jón Rafn Bjarnason gerði tónlistina við hana, og gaf út á tveggja laga plötu.

Punktur punktur komma strik, mynd Þorsteins Jónssonar byggð á samnefndri skáldsögu Péturs Gunnarssonar, var frumsýnd 1981. Aðalhlutverk hennar voru í höndum Halls Helgasonar, Péturs Bjarna Jónssonar, Kristbjargar Kjeld og Erlings Gíslasonar. Í fyrsta skiptið í íslenskri kvikmyndagerð var nú gefin út „sándtrakk“ úr myndinni en Valgeir Guðjónsson annaðist tónlistina sem var í anda frumrokksins. Platan fékk þokkalega dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar, mjög góða í Tímanum og frábæra í Morgunblaðinu.

Þetta sama ár, 1981, komu myndirnar um Jón Odd og Jón Bjarna sem gerð var eftir sögu Guðrúnar Helgadóttur (í leikstjórn Þráins Bertelssonar) og Útlaginn (eftir Ágúst Guðmundsson) sem byggð var á Gísla sögu Súrssonar, en engin tónlist var gefin út í tengslum við þær. Egill Ólafsson sá um tónlistina í fyrrnefndu myndinni en Áskell Másson í þeirri síðari.

Fyrsta Stuðmannamyndin, gleðimyndin Með allt á hreinu, leit dagsins ljós 1982. Ágúst Guðmundsson leikstýrði henni en hljómsveitirnar Stuðmenn og Grýlurnar léku aðalhlutverk hennar ásamt Eggerti Þorleifssyni. Myndin sló hvarvetna í gegn og er aðsóknarmesta íslenska myndin frá upphafi en um 125.000 manns sáu hana í bíóum landsins. Tónlistin var í forgrunni og varð feikilega vinsæl, hún kom út á samnefndri plötu sem fékk mjög góða dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar og frábæra í Morgunblaðinu og DV. Fleiri lög úr myndinni komu út á plötunni Í góðu geimi 1985. Árið 2000 var gefin út plata til heiðurs myndinni en á henni er að finna lög úr myndinni í flutningi vinsælla tónlistarmanna.

Okkar á milli í hita og þunga dagsins var frumsýnd sumarið 1982. Hrafn Gunnlaugsson var leikstjóri hennar en Benedikt Árnason lék aðalhlutverk hennar. Myndin og ekki síst tónlistin úr henni olli miklum deilum en Guðmundur Ingólfsson spilaði þjóðsöng Íslendinga í djassútsetningu í lokalagi plötunnar, vegna þess m.a. urðu mikil blaðaskrif. Annars komu flytjendur tónlistarinnar úr öllum áttum, allt frá Fræbbblunum til Þursaflokksins, en Egill Ólafsson hélt utan um hana. Platan með tónlistinni fékk fremur slaka dóma í Poppbók Jens Guðmundssonar.

1982 var stuttmynd unnin af nokkrum ungum menntaskólanemum í Hafnarfirði, þeim sömu og gert höfðu Feilpústið tveimur árum áður. Nafnið á myndinni er ekki kunnugt en einn þeirra sem vann við myndina var Stefán Hjörleifsson (gítarleikari Nýdanskra og stofnandi Tónlist.is). Hann gaf út fjögurra laga plötuna Morgundagurinn með tónlistinni úr myndinni.

Heimildamyndin Rokk í Reykjavík eftir Friðrik Þór Friðriksson var frumsýnd vorið 1982 en í henni var að finna þverskurðinn af pönk- og rokktónlist Íslendinga, ásamt fjölda viðtala við tónlistarmennina.

Fjölmargar hljómsveitir komu fram í þessari umdeildu mynd og tónlistin var gefin út á tvöfaldri plötu. Myndin var bönnuð börnum yngri en fjórtán ára á þeim forsendum að þar var talaði ungur meðlimur einnar sveitarinnar (Sjálfsfróunar) um límsniff, en reyndar mun Bryndís Schram (sem þá stjórnaði Stundinni okkar í Sjónvarpinu) hafa beðið um að fá að sýna umrætt viðtal í þættinum sínum. Banninu var síðar aflétt. Framlag Bruna BB var einnig umdeilt en þar komu dýraverndunarsjónarmið við sögu. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Einnig var myndin Sóley (eftir Rósku Óskarsdóttur) sýnd þetta ár en tónlistin fékk þar lítið vægi og litlar upplýsingar er að finna um hana.

Fyrsta myndin, Nýtt líf, í þríleiknum um þá Þór og Danna leit dagsins ljós 1983 þar sem þeir Eggert Þorleifsson og Karl Ágúst Úlfsson léku aðalhlutverkin en leikstjórn var í höndum Þráins Bertelssonar. Hljómsveitin Tappi tíkarrass og Guðmundur Rúnar Lúðvíksson sáu um tónlistarhlutann í myndinni en þegar til kom fór lítið fyrir framlagi þeirra fyrrnefndu. Guðmundur gaf hins vegar sinn hluta út á plötunni Gallabuxur sama ár. Hún fékk fremur slaka dóma í tímaritinu Samúel, heldur skárri í DV og þokkalega í Morgunblaðinu.

Skilaboð til Söndru með Bessa Bjarnason í aðalhlutverki og Kristínu Pálsdóttur sem leikstjóra fór á hvíta tjaldið 1983. Gunnar Reynir Sveinsson sá um tónlistarhlið myndarinnar og lag úr henni, Maður hefur nú, flutt af Bubba Morthens naut nokkurra vinsælda en kom einungis út á safnplötum því ekki kom út plata með tónlist úr myndinni.

Húsið, mynd Egils Eðvarðssonar frá 1983 var með Lilju Þórisdóttur, Borgar Garðarsson og Jóhann Sigurðarson í lykilhlutverkum en Þórir Baldursson annaðist tónlistarhliðina. Hún kom þó ekki út á plötu. Það sama er að segja um mynd Kristínar Jóhannesdóttur, Á hjara veraldar, sem frumsýnd var vorið 1983 en sú mynd er e.t.v. einna merkilegust fyrir þá staðreynd að það var fyrsta myndin sem Hilmar Örn Hilmarsson vann tónlistina.

Annar dans, mynd Lárusar Ýmis Óskarssonar, sem var frumsýnd haustið 1983 innihélt ennfremur litla tónlist.

Kúrekar norðursins var ein af þeim kvikmyndum sem sýndar voru 1984, Friðrik Þór Friðriksson gerði þessa heimildamynd sem fjallaði um Hallbjörn Hjartarson á Skagaströnd. Tónlistin úr henni kom út á samnefndri plötu og var að mestu af plötum þeirra Hallbjarnar og Johnny King (Jóns Víkingssonar).

Hrafninn flýgur, í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar var sýnd 1984 en Edda Björgvinsdóttir, Egill Ólafsson, Helgi Skúlason og Flosi Ólafsson voru í aðalhlutverkum myndarinnar. Tónlistin var eftir Sigvalda Kaldalóns og Hans Erik Philip, hún kom ekki út á plötu.

Atómstöðin (byggð á samnefndri bók Halldórs Laxness) eftir Þorstein Jónsson var frumsýnd um sumarið 1984, myndin innihélt litla tónlist en hún var í höndum Karls J. Sighvatssonar, sama er að segja um aðra myndina um þá Þór og Danna, eftir Þráin Bertelsson, Dalalíf en engar upplýsingar er að finna um tónlistina í þeirri mynd.

Gullsandur, mynd Ágústs Guðmundssonar með þau Pálma Gestsson og Eddu Björgvinsdóttur í aðalhlutverkum var einnig sýnd 1984. HLH-flokkurinn kom þar fram undir nafninu Sómamenn og komu út lög með sveitinni á safnplötum.

Stuðmenn höfðu gert myndina ódauðlegu Með allt á hreinu og nú átti að endurtaka leikinn 1985. Hún hlaut nafnið Hvítir mávar og leikstýrði Jakob F. Magnússon henni en aðalhlutverk voru í höndum Egils Ólafssonar, Tinnu Gunnlaugsdóttur og Ragnhildar Gísladóttur. Myndin hlaut ekki þá viðurkenningu sem menn ætluðu en tónlistin varð mun stærri þáttur enda gefin út á plötu Stuðmanna, Kókostré og hvítir mávar. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Stuðmenn tengdust reyndar annarri mynd um svipað leyti, Nickel mountain, sem Jakob Magnússon var einn framleiðenda af og gerð var 1985. Megnið af tökuliði myndarinnar Með allt á hreinu kom að þessari bandarísk-íslensku kvikmynd og einnig má sjá nokkra íslenska leikara í henni, m.a. hljómsveitina Grýlurnar sem eru þar í hlutverki „vesturheimskra alþýðukvenna“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu. Tónlistin var þó í höndum erlendra aðila.

Haustið 1985 voru tvær kvikmyndir eftir Óskar Jónasson sýndar í litlum sal í Regnboganum, um var að ræða myndirnar Oxzmá plánetan og Sjúgðu mig Nína en tónlist úr síðari myndinni kom út á snældu hljómsveitarinnar Oxzmá. Þess má geta að tónlistarfólkið Kormákur Geirharðsson og Halla Margrét Árnadóttir léku aðalhlutverk síðarnefndu myndarinnar.

Skammdegi og Löggulíf, þriðja myndin um Þór og Danna (báðar eftir Þráin Bertelsson), voru einnig sýndar 1985 en innihéldu litla tónlist (Guðmundur Ingólfsson sá um tónlist Löggulífs), og enga sem kom út á plötum.

Eins og skepnan deyr í leikstjórn Hilmars Oddssonar var frumsýnd 1986 en Edda Heiðrún Backman, Þröstur Leó Gunnarsson og Jóhann Sigurðarson léku titilhlutverkin. Hilmar samdi sjálfur tónlistina (sem Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson sá að öðru leyti um) en tvö lög, Allur lurkum laminn flutt af Bubba Morthens og Önnur sjónarmið flutt af Eddu Heiðrúnu urðu vinsæl, af sjö laga plötu sem kom út í tengslum við myndina. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu.

Þetta sama ár, 1986, var mynd Þórhildar Þorleifsdóttur, Stella í orlofi sýnd við miklar vinsældir. Edda Björgvinsdóttir, Þórhallur (Laddi) Sigurðsson og Gestur Einar Jónasson voru í aðalhlutverkunum en titillag myndarinnar, flutt af Diddú og Dúói Ásgeirs Óskarssonar, naut mikilla vinsælda. Það kom síðan út á safnplötunni FM 86-7 en engin plata með tónlistinni úr myndinni leit dagsins ljós. Valgeir Guðjónsson annaðist tónlistarhluta myndarinnar.

Reykjavík átti 200 ára afmæli 1986 og af því tilefni var mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Reykjavík Reykjavík sýnd, en tónlistina við þá mynd gerði Gunnar Þórðarson. Tónlistin úr myndinni kom út á tvöfaldri safnplötu sem bar nafnið Reykjavíkurflugur, en önnur platan var helguð henni. Þekktast laga er líklega Tilbrigði um fegurð en það var notað við kynningar í fegurðarsamkeppnum.

Skytturnar, mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar frá 1987, skartaði tveimur óþekktum leikurum, Þórarni Óskari Þórarinssyni og Eggert Guðmundssyni. Tónlistin úr henni kom út á tveimur plötum, annars vegar með MX21 og Sykurmolunum, hins vegar með hljómsveit Hilmars Arnar Hilmarssonar, Ornamental.
1988 leit mynd Jóns Tryggvasonar, Foxtrot, dagsins ljós en aðalhlutverk hennar voru í höndum Valdimars Arnar Flygenring, Steinarrs Ólafssonar og Maríu Ellingsen. Titillag myndarinnar kom út á plötu Bubba Morthens, 56, en tónlistin var í höndum hans og Hilmars Arnar Hilmarssonar.

Í skugga hrafnsins var einnig sýnd þetta ár en hún var í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Tónlistin var íslensk en í höndum erlendra aðila.

Kristnihald undir jökli, mynd Guðnýjar Halldórsdóttur eftir sögu Halldórs Laxness föður hennar, var sýnd í bíóhúsum 1989 en í titilhlutverkum voru þeir Sigurður Sigurjónsson og Baldvin Halldórsson. Tónlistin, sem Gunnar Reynir Sveinsson annaðist, skipaði ekki stóran sess í myndinni og kom ekki út á plötu.

Magnús kom út sama ár (1989) en leikstjóri hennar var Þráinn Bertelsson, Egill Ólafsson lék þar aðalhlutverkið. Tónlist var lítt áberandi en Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) hélt utan um hana.

Ryð (1990), mynd Lárusar Ýmis Óskarssonar var byggð á leikritinu Bílaverkstæði Badda og léku Bessi Bjarnason, Egill Ólafsson og Sigurður Sigurjónsson helstu hlutverk. Tónlistin er í höndum erlends aðila.

Árið 1991 var gott ár í kvikmyndasögu Íslands en þá var mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar frumsýnd en hún skartaði þeim Gísla Halldórssyni og Sigríði Hagalín í aðalhlutverkum. Myndin hlaut fjölda verðlauna og fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta erlenda kvikmyndin. Tónlistin úr myndinni eftir Hilmar Örn Hilmarsson var einnig margverðlaunuð, þar á meðal fékk hann Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fyrir tónlistina. Hluti af tónlistinni kom út tíu árum síðar á plötu Hilmars, Dust to dust.

1992 var einnig áberandi í kvikmyndagerð á Íslandi, fyrst er að nefna Sódómu Reykjavík, mynd Óskars Jónassonar en þar lék Björn Jörundur Friðbjörnsson aðalhlutverkið. Sigurjón Kjartansson annaðist tónlistarþátt myndarinnar en ýmsar hljómsveitir komu þar við sögu. Platan hlaut þokkalega dóma í DV og mjög góða í Morgunblaðinu en mörg laganna nutu mikilla vinsælda sumarið 1992.

Ingaló, mynd Ásdísar Thoroddsen, var einnig frumsýnd 1992, aðalhlutverkin voru í höndum Sólveigar Arnarsdóttur, Ingvars E. Sigurðssonar og Haraldar Hallgrímssonar. Tónlistin var í höndum erlends aðila og lítt áberandi og það sama má segja um mynd Kristínar Jóhannesdóttur frá sama ári, Svo á jörðu sem á himni en þar voru Tinna Gunnlaugsdóttir, Álfrún Örnólfsdóttir og Pierre Vaneck í helstu hlutverkum. Þar var tónlistin í höndum Hilmars Arnar Hilmarssonar.

Veggfóður: erótísk ástarsaga kom einnig fram á sjónarsviðið sumarið 1992 en þar léku Steinn Ármann Magnússon, Baltasar Kormákur og Ingibjörg Stefánsdóttir (söngkona Pís of keik) titilhlutverkin, Júlíus Kemp leikstýrði. Plata með tónlistinni úr myndinni kom út og naut mikilla vinsælda enda fleytifull af vinsælum hljómsveitum þess tíma auk þess sem Máni Svavarsson var þar fremstur í flokki.

1993 var mynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Karlakórinn Hekla, frumsýnd en aðalleikarar hennar voru þau Ragnhildur Gísladóttir, Egill Ólafsson og Garðar Cortes. Tónlistarflutningur myndarinnar var í höndum Karlakórsins Fóstbræðra og Sinfóníuhljómsveitar Íslands að mestu en fjölmargir þjóðkunnir söngvarar komu þar einnig við sögu. Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) hafðið yfirumsjón með tónlistinni en hún kom út á plötu.

Stuttur frakki, mynd Gísla Snæs Erlingssonar, var frumsýnd um sumarið 1993. Aðalleikarar hennar voru Jean Philippe-Labadie, Hjálmar Hjálmarsson og Elva Ósk Ólafsdóttir. Tónlistin var fyrirferðamikil í myndinni, hún skartaði mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins og haldnir voru tónleikar (Bíórokk), sem myndin snerist svolítið um. Plata tengd henni kom út og hlaut fremur slaka dóma í DV.

Hin helgu vé eftir Hrafn Gunnlaugsson frá 1993 var með Steinþór Rafn Matthíasson, Öldu Sigurðardóttur og Helga Skúlason í aðalhlutverkum. Hilmar Örn Hilmarsson annaðist tónlistina í henni en lag úr henni kom út á safnplötunni Bíólögin.

Bíódagar Friðriks Þórs Friðrikssonar var sýnd í bíóhúsum 1994 en þar kom tónlist sem Hilmar Örn Hilmarsson sá um, heilmikið við sögu. Þegar plata með tónlist úr myndinni kom út var uppistaðan lög frá 1950-70 en einu nýju lagi var bætt inn, titillagi myndarinnar flutt af Bubba Morthens. Örvar Jens Arnarsson, Rúrík Haraldsson og Sigrún Hjálmtýsdóttir fóru með aðalhlutverk myndarinnar.

Kári Gunnarsson, Guðrún Gísladóttir og Hjalti Rögnvaldsson léku aðalhlutverkin í mynd Þorsteins Jónssonar frá 1994 en hún var byggð á sögunni Emil og Skundi eftir Guðmund Ólafsson. Tónlistin var í aukahlutverki og kom ekki út á plötu.

1995 kom myndin Einkalíf í leikstjórn Þráins Bertelssonar, aðalhlutverk hennar voru í höndum Gottskálks Dags Sigurðssonar, Dóru Takefusa og Ólafs Egilssonar en Margrét Örnólfsdóttir sá um tónlistina sem kom út á plötu. Þar mátti m.a. finna lag GCD, Mýrdalssandur í nýstárlegri útgáfu.

Kvikmyndin Ein stór fjölskylda (1995) skartaði Jóni Sæmundi Auðunssyni, Ásdísi Sif Gunnarsdóttur og Sigrúnu Hólmgeirsdóttur í aðalhlutverkum en Jóhann Sigmarsson leikstýrði henni og var jafnframt framleiðandi myndarinnar. Tónlistin úr myndinni kom út á vegum Smekkleysu og var að mestu í höndum hljómsveitarinnar Skárren ekkert.

1995 var Tár úr steini í leikstjórn Hilmars Oddssonar sýnd er Þröstur Leó Gunnarsson lék titilhlutverkið þar. Myndin sem fjallar um ævi Jóns Leifs tónskálds var valin besta norræna myndin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg en tónlistin úr henni var gefin út á plötu. Tónlistin var að sjálfsögðu eftir sjálft tónskáldið, flutt að mestu af Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hjálmar H. Ragnarsson hafði yfirumsjón með henni.

Á köldum klaka (Cold fever), mynd Friðriks Þórs Friðrikssonar frá 1995 var með japanska leikarann Masatoshi Nagase, Lily Taylor og Fisher Stevens í helstu hlutverkum en tónlistin var í höndum Hilmars Arnar Hilmarssonar. Hún kom þó ekki út á plötu.

Nei er ekkert svar er mynd Jóns Tryggvasonar frá 1995. Söngkonurnar Heiðrún Anna Björnsdóttir og Ingibjörg Stefánsdóttir léku aðalhlutverkin en tónlist úr myndinni sem kom úr ýmsum áttum, kom ekki út á plötu frekar en úr mynd Gísla Snæs Erlingssonar, Benjamíns dúfu (1995), sem byggð var á samnefndri sögu enn eins tónlistarmannsins, Friðriks Erlingssonar. Sturla Sigfússon, Gunnar Atli Cauthery og Sigfús Sturluson léku helstu hlutverk.

Enn er ein mynd ársins 1995 ónefnd, Nautn nr. 1 eftir Sigurð Kjartansson og Stefán Árna Þorgeirsson. Þótt myndin hafi ekki farið hátt var ungt fólk að vinna við tónlist hennar, og það samstarf varð að fjöllistahópnum Gus Gus en fyrsta plata sveitarinnar innihélt tónlistina úr myndinni.

Árið 1996 var Djöflaeyjan í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar frumsýnd en hún var byggð á skáldsögu Einars Kárasonar, Þar sem djöflaeyjan rís. Baltasar Kormákur, Gísli Halldórsson og Sigurveig Jónsdóttir fóru með aðalhlutverk í myndinni sem naut gríðarlegra vinsælda. Tónlistin úr myndinni kom út á plötu en hún var í höndum Hilmars Arnar Hilmarssonar, Björgvins Halldórssonar og Vilhjálms Guðjónssonar og lagið Þig dreymir kannski engil í flutningi Björgvins fékk nokkra spilun í útvarpi.

1996 kom tónlistin úr kvikmyndinni Agnes í leikstjórn Egils Eðvarðssonar út á plötu en aðalhlutverk voru í höndum Baltasar Kormáks, Egils Ólafssonar og Maríu Erlingsen. Gunnar Þórðarson sá um tónlistina í myndinni.

Draumadísir (1996), mynd Ásdísar Thoroddsen með þau Silju Hauksdóttur og Baltasar Kormák í aðalhlutverkum en Einar Melax annaðist líklega tónlistarhluta myndarinnar.

Stuttmyndin Gas var sýnd í bíóhúsið vorið 1996 en hún var í leikstjórn Sævars Guðmundssonar, sem var hluti af norðlenskum stuttmyndahóp. Trausti Haraldsson, Jón Andri Sigurðarson og Borgar Þórarinsson önnuðust tónlistina í myndunum en titillagið, í flutningi Fantasíu og Stefáns Hilmarssonar varð mjög vinsælt um sumarið.

1997 var mynd Júlíusar Kemp, Blossi/8l0551 sýnd en hún skartaði Páli Banine, Þóru Dungal og Finni Jóhannssyni í aðalhlutverkum. Plata með tónlistinni úr myndinni kom út og hafði að mestu að geyma íslenska flytjendur úr rokk-, rapp- og dansgeiranum en Máni Svavarsson hafði yfirumsjón með henni.

Stikkfrí var einnig frumsýnd 1997 en leikstjóri hennar var Ari Kristinsson. Aðalleikarar voru Bergþóra Aradóttir og Freydís Kristófersdóttir en Valgeir Guðjónsson samdi tónlistina sem kom út á plötu árið eftir ásamt tónlistinni úr Punkti punkti kommu strik.

Árið 1998 var heimildamyndin Popp í Reykjavík eftir Ágúst Jakobsson (S.H. draumur o.fl.) frumsýnd, hún var óháð og sjálfstætt framhald Rokks í Reykjavíkur og skartaði mörgum vinsælum flytjendum þess tíma. Stórtónleikar voru haldnir í tengslum við gerð myndarinnar þar sem á fjórða tug tónlistarmanna og hljómsveita komu fram. Safnplata með flytjendum sem fram komu í myndinni kom út og fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu en síðri í tímaritinu Fókus. Tvenns konar útgáfur plötunnar fóru á markað, annars vegar sautján laga en hins vegar einungis fimmtán laga.

Sporlaust var ein af myndum ársins 1998 en Hilmar Oddsson leikstýrði henni. Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir skörtuðu aðalhlutverkum en tónlistin, sem út kom á plötu var tvíþætt, annars vegar var um að ræða rokkhluta hennar í höndum Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og Selmu Björnsdóttur en hins vegar hina eiginlegu kvikmyndatónlist, samda af Hjálmari H. Ragnarssyni.

Perlur og svín var ein mynda ársins 1998. Hún var í leikstjórn Óskars Jónassonar en Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Jóhann Sigurðarson léku aðalhlutverkin. Titillag myndarinnar, flutt af Emilíönu Torrini, kom út sem aukalag á plötu gefinni út í tengslum við leikritið Veðmálið en engin plata kom út með tónlist úr myndinni. Lagið náði töluverðum vinsældum.

Steyptir draumar, leikin heimildamynd Kára Schram var frumsýnd 1999 en í henni heyrist tónlist Margrétar Örnólfsdóttur. Hún kom þó ekki út á plötu.

Úngfrúin góða og húsið, mynd Guðnýjar Halldórsdóttur sem byggð var á smásögu Halldórs Laxness, var frumsýnd haustið 1999. Ragnhildur Gísladóttir og Tinna Gunnlaugsdóttir voru í helstu hlutverkum en tónlistin var í höndum Hilmars Arnar Hilmarssonar. Hún kom þó ekki út á plötu.

Myrkrahöfðinginn (1999) var kvikmynd byggð á Píslarsögu Jóns Magnússonar og var í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar. Hilmir Snær Guðnason lék aðalhlutverk hennar en leikstjórinn sá sjálfur um tónlistina.

Þó ekki sé hægt að telja mynd Lars von Trier frá árinu 2000, Dancer in the dark með Björk Guðmundsdóttur í aðalhlutverki til íslenskra mynda, samdi og gaf Björk út tónlistina úr myndinni undir nafninu Selmasongs. Myndin og tónlistin hlaut hvarvetna góðar viðtökur.

Og fleiri stórmyndir litu dagsins ljós þetta árið (2000). Englar alheimsins í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar eftir sögu Einars Más Guðmundssonar sló í gegn svo um munaði og hlaut fjöldann allan af Edduverðlaunum en aðalhlutverk voru í höndum Baltasar Kormáks, Hilmis Snæs Guðnasonar, Björns Jörundar Friðbjörnssonar og Ingvars E. Sigurðssonar. Hilmar Örn Hilmarsson og Sigur rós sáu um tónlistarflutning í myndinni og þóttist taka vel upp, platan með tónlistinni úr myndinni fékk frábæra dóma í Morgunblaðinur og ágæta í tímaritinu 24/7. 2001 kom síðan út í nafni Hilmars, platan Dust to dust með meiri tónlist úr myndinni.

Íslenski draumurinn var ein mynda ársins 2000, leikstýrð af Róbert I. Douglas með Þórhall Sverrisson og Jón Gnarr í aðalhlutverkum. Tónlistin sem var í höndum Jóhanns Jóhannssonar kom úr öllum áttum og kom út á plötu, hún hlaut þó varla nema sæmilega dóma í Morgunblaðinu. Til stóð að hljóðrás myndarinnar kæmi einnig út í plötuformi en af því varð líklega ekki.

Fíaskó var frumsýnd vorið 2000, hún er eftir Ragnar Bragason og voru m.a. Eggert Þorleifsson, Kristbjörg Kjeld, Róbert Arnfinsson og Silja Hauksdóttir í aðalhlutverkum. Barði Jóhannsson sá um tónlistina en hún kom ekki út á plötu.

Óskabörn þjóðarinnar var enn ein mynda sem komu árið 2000. Hún var í leikstjórn Jóhanns Sigmarssonar en Óttar Proppé, Grímur Hjartarson og Ragnheiður Axel voru í aðalhlutverkunum. Tónlistin var í höndum Jóhanns Jóhannssonar og kom úr raf- og rokkgeiranum. Platan sem kom út í kjölfarið fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Varði fer á vertíð (2000) var heimildamynd Gríms Hákonarsonar með Hallvarð Ásgeirsson í aðalhlutverki. Tónlistin skipaði nokkuð stóran sess í myndinni en kom aldrei út á plötu.

Myndin 101 Reykjavík, byggð á skáldsögu Hallgríms Helgasonar var frumsýnd sumarið 2001 en aðalhlutverk myndarinnar voru í höndum Victoriu Abril, Hilmis Snæs Guðnasonar og Hönnu Maríu Karlsdóttur. Tónlistarflutningur var í höndum Einars Arnar Benediktssonar og Damon Albarn en platan með tónlistinni fékk ágæta dóma í tímaritinu Undirtónum.

Villiljós var frumsýnd snemma árs 2001 og innihélt margar sögur, leikstýrðum af jafnmörgum leikstjórum, en tónlist var í höndum Barða Jóhannssonar. Engin plata kom þó út í tengslum við hana.

Jaguar: the movie var heimildamynd um hljómsveitina Jagúar en lögin voru á plötu þeirra, Get the funk out, sem kom út um sama leyti.

Lalli Johns, heimildamynd Þorfinns Guðnasonar var sýnd í bíóhúsum 2001, Þorbjörn Á. Erlingsson og hljómsveitin Miðnes sáu um tónlistina í myndinni.

Heimildamyndin Ham lifandi dauðir eftir Þorgeir Guðmundsson var frumsýnd 2001 en í henni var fjallað um sögu hljómsveitarinnar Ham og tónlist hennar. Engin plata kom þó út í tengslum við myndina.

Sjónvarpsmyndin Í faðmi hafsins eftir Lýð Árnason og Jóakim Reynisson var framleidd 2001 en Hinrik Ólafsson og Halla Vilhjálmsdóttir voru þar í aðalhlutverkum. Tónlistin úr myndinni var gefin út á plötu.

Enn ein heimildamyndin var Hlemmur, gerð af Ólafi Sveinssyni árið 2001. Hljómsveitin Sigur rós sá um tónlistina
og gaf hana út á plötu en hún hlaut síðan Edduverðlaunin 2003.

Fálkar var ein af myndum ársins 2002 en í aðalhlutverkum þeirrar myndar voru Keith Carradine, Rafi Guessous og Margrét Vilhjálmsdóttir. Friðrik Þór Friðriksson leikstýrði og Hilmar Örn Hilmarsson hélt utan um tónlistina sem kom út á plötu og innihélt ýmsa listamenn s.s. Megas.

Einnig kom út þetta sama ár myndin Gemsar í leikstjórn Mikaels Torfasonar. Helstu leikarar voru Halla Vilhjálmsdóttir, Andri Óttarsson og Matthías Freyr Matthíasson en Gunnar L. Hjálmarsson (Dr. Gunni) annaðist tónlistarhlið hennar. Tónlistin kom út á plötu og var þar að finna blandaða tónlist en fimm laganna voru eftir Gunnar.

Heimildamyndin Í skóm drekans (2002) eftir Hrönn og Árna Sveinsbörn fjallaði um Fegurðarsamkeppni Íslands og vakti töluverða athygli þegar hún var framleidd einkum eftir að lögbann fékkst á hana en vafi lék á lögmæti sýningar hennar vegna trúnaðar sem keppendur voru bundnir. Myndin hlaut Edduverðlaun sem besta heimildamyndin en tónlistin úr henni kom út á plötu og fékk ágætar viðtökur.

Önnur heimildamynd, Varði goes Europe eftir Grím Hákonarson (framhald af Varði fer á vertíð) með Hallvarð Ásgeirsson í aðalhlutverki var sýnd (2002) og kom út plata samhliða myndinni, sem hafði að geyma tónlistina úr henni. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Dans- og söngvamyndin Regína var frumsýnd þetta sama ár, 2002. Myndin var í leikstjórn Maríu Sigurðardóttur en Margrét Örnólfsdóttir sá um tónlistarhlið myndarinnar, sem gefin var út á plötu og fékk ágæta dóma í fjölmiðlum. Olga Guðrún Árnadóttir kom að mestu að textagerð við tónlistina. Sigurbjörg Alma Ingólfsdóttir, Benedikt Clausen, Baltasar Kormákur og Halldóra Geirharðsdóttir voru í helstu hlutverkum.

Hafið, mynd Baltasars Kormáks með Gunnar Eyjólfsson, Kristbjörgu Kjeld og Hilmi Snær Guðnason í aðalhlutverkum, var frumsýnd haustið 2002. Ekki kom út plata með tónlist myndarinnar en lagið Itchy palms með Heru Hjartardóttur naut nokkurra vinsælda, það kom út á smáskífu Heru.

Maður eins og ég, mynd Róberts I. Douglas var frumsýnd síðsumars 2002. Jón Gnarr Stephanie Che og Þorsteinn Guðmundsson léku stærstu hlutverkin en Jóhann Jóhannsson sá um tónlistina. Lagið Þú fullkomnar mig í flutningi Sálarinnar hans Jóns míns var gefið út í tengslum við myndina en það naut mikilla vinsælda.

Stella í framboði (2002), mynd Guðnýjar Halldórsdóttur var með Eddu Björgvinsdóttur, Þórhall (Ladda) Sigurðsson og Gísla Rúnar Jónsson í aðalhlutverkum. Valgeir Guðjónsson hafði umsjón með tónlistinni, sem og fyrirrennaranum Stellu í orlofi.

Reykjavík guesthouse: rent a bike var enn ein myndin frá þessu ári. Hún var í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur og Björns Thors og aðal leikarar hennar voru Hilmir Snær Guðnason og Stefán Eiríksson. Tónlistin var gefin út á plötu en Daníel Bjarnason hafði yfirumsjón með henni. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Árið 2003 kom myndin Nói albinói í leikstjórn Dags Kára Péturssonar, Tómas Lemarquis, Elín Hansdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson léku aðalhlutverkin en myndin fékk mjög góðar viðtökur og sex Edduverðlaun, auk útnefningar fyrir forval Óskarsverðlaunanna. Tónlistin úr myndinni var í höndum hljómsveitarinnar Slowblow (sem Dagur Kári var í) en plata með tónlistinni kom ekki út fyrr en árið eftir vegna deilna milli útgefandans og franska dreifingaraðilans sem átti að dreifa henni erlendis. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og tímaritinu Vamm, og var ennfremur tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum ýmis tónlist.

Heimildamyndin Mótmælandi Íslands í leikstjórn Þóru Fjeldsted og Jóns Karls Helgason var sýnd árið 2003 og fjallaði um Helga Hóseason. Sigurjón Kjartansson hafði umsjón með tónlist myndarinnar.

Leikin heimildamynd, Njáls saga (byggð á Brennu-Njáls sögu) var frumsýnd þetta sama ár en hún skartaði þeim Hilmi Snæ Guðnasyni, Ingvari E. Sigurðssyni og Margréti Vilhjálmsdóttur ásamt fleirum í aðalhlutverki. Hilmar Örn Hilmarsson sá um tónlistina en leikstjóri var Björn Brynjúlfur Björnsson.

U.s.s.s.s. var frumsýnd sumarið 2003 en leikstjóri hennar var Eiríkur Leifsson. Davíð Guðbrandsson, Jón Marinó, Sirrý Jónsdóttir og Felix Eyjólfsson voru í aðalhlutverkum. Tónlistin í myndinni var í harðari kantinum og komu fjölmargar hljómsveitir þar við sögu, hún kom þó ekki út á plötu.

Heimildamyndin Blindsker sem fjallaði um Bubba Morthens var gefin út 2004. Hún var í leikstjórn Ólafs Jóhannessonar sem framleiddi hana ásamt Ólafi Páli Gunnarssyni, hún hlaut síðar Edduverðlaun sem besta heimildamynd ársins. Tónlistin kom út á plötu og hafði að geyma eins og búast mátti við, lög með Bubba.

Önnur heimildamynd kom út sama ár, Pönkið og Fræbbblarnir eftir Örn Marinó Arnarson og Þorkel S. Harðarson. Í henni var fjallað um sögu pönksins á Íslandi en þar spiluðu Fræbbblarnir stórt hlutverk, myndin var full af tónlist en ekki var gefin út plata í tengslum við hana.

Þetta sama ár (2004) var kvikmyndin Dís í leikstjórn Silju Hauksdóttur sýnd en í aðalhlutverkum hennar voru Álfrún Örnólfsdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir og Ylfa Edelstein. Jóhann Jóhannsson sá um tónlistina en titillag myndarinnar varð nokkuð vinsælt í flutningi Ragnheiðar Gröndal. Það var tilnefnt sem lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum. Platan með tónlistinni úr myndinni fékk ennfremur mjög góða dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu.

Kaldaljós í leikstjórn Hilmars Oddssonar var frumsýnd 2004 einnig en hún er byggð á samnefndri skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur. Ingvar E. Sigurðsson og Áslákur Ingvarsson léku aðalhlutverk myndarinnar en Hjálmar H. Ragnarsson annaðist tónlistarhluta hennar sem kom út á plötu en flutningur tónlistarinnar var einkum í höndum London session orchestra. Tónlistin fékk fremur góða dóma Morgunblaðinu.

Næsland (Niceland) var enn ein myndin sem kom við sögu 2004. Friðrik Þór Friðriksson leikstýrði en helstu hlutverk voru í höndum erlendra leikara. Mugison (Örn Elías Guðmundsson) sá um tónlistina í myndinni en hún var að mestu unnin í Súðavíkurkirkju. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu og ágæta í tímaritinu Vamm.

Allt er þá er þrennt er átti vel við þegar Stuðmenn frumsýndu þriðju mynd sína, Í takt við tímann sumarið 2004, en hún var hugsuð sem framhald myndarinnar Með allt á hreinu. Ágúst Guðmundsson leikstýrði og Stuðmenn og Eggert Þorleifsson voru sjálfir í helstu hlutverkum. Eins og reikna mátti var tónlistin fyrirferðamesti þáttur myndarinnar, hún kom út á plötu og fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Popplandi á Rás 2.

Heimildamynd um Karlakórinn Heimi; Söngur í 75 ár var gerð 2004 en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um hana. Ekki kom þó út plata með tónlistinni úr myndinni.

2005 kom Björk aftur við sögu með kvikmyndatónlist í mynd Matthews Barney, Drawing restraint 9. Tónlistin var gefin út í nafni Bjarkar og fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Fréttablaðinu.

Egill Sæbjörnsson vann 2005 tónlist fyrir myndina Closeup gallery eftir Daria Martin en um var að ræða eins konar myndlistaverk. Tónlistin kom út á plötu Egils, Crazy diamond.

Heimildamyndin Afríka United (2005) var eftir Ólaf Jóhannesson og sá Barði Jóhannsson um tónlistina. Hún komekki út á plötu.

Það sama ár (2005) var tónlistarheimildamyndin Gargandi snilld (Screaming masterpiece) frumsýnd en henni var leikstýrt af Ara Alexander Ergis Magnússyni. Þessi mynd var í anda Rokk í Reykjavík og Popp í Reykjavík og skartaði hljómsveitum eins og Sigur rós, Quarashi og Sykurmolunum. Plata með tónlistinni úr myndinni kom út samhliða henni.

Little trip to heaven (2005) í leikstjórn Baltasars Kormáks skartaði ekki ómerkari leikurum en Forest Whitaker og Juliu Stiles. Mugison sá um tónlistarhlið myndarinnar og platan (sem kom út í hans nafni) hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í tímaritinu Málinu. Hann fékk Edduverðlaun fyrir tónlistina í henni 2006 sem og fyrir Mýrina.

Strákarnir okkar var sýnd við nokkrar vinsældir 2005, leikstjóri hennar var Róbert Douglas en aðalhlutverk var í höndum Björns Hlyns Haraldssonar. Jóhann Jóhannsson og hljómsveitin Mínus sáu um tónlistina í myndinni, sem gefin var út undir nafninu Mínusbarði (sem var samstarf þeirra Mínus-liða og Barða Jóhannssonar sem einnig kom að tónlistinni). Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Hljómsveitin Slowblow hlaut 2005 Edduverðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Voksne mennesker en hún var í leikstjórn Dags Kára Pétursson. Varla er þó hægt að segja að um íslenska mynd sé að ræða.

Barði Jóhannsson (Bang Gang) gerði árið 2006 tónlist við dönsku myndina Haxan sem gerð var 1920. Tónlistin var gefin út og hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í Fréttablaðinu. Hún var ennfremur tilnefnd sem plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Köld slóð, mynd Björns Brynjúlfs Björnssonar með Þröst Leó Gunnarsson, Elvu Ósk Ólafsdóttur og Helga Björnsson í aðalhlutverkum var einnig sýnd 2006. Engin tónlist kom út í tengslum við sýningu myndarinnar.

Stórmynd ársins 2006 var án efa Mýrin, sem gerð var eftir skáldsögu Arnaldar Indriðasonar en Baltasar Kormákur leikstýrði henni. Ingvar E. Sigurðsson, Björn Hlynur Haraldsson og Ólafía Hrönn Jónsdóttir léku stærstu hlutverkin. Mugison (Örn Elías Guðmundsson) sá um tónlistarhlið myndarinnar, sem kom út á plötu og fékk mjög góða dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Hann hlaut Edduverðlaunin fyrir tónlistina.

Börn, fyrri mynd í myndatvennu Ragnars Bragasonar leit dagsins ljós 2006, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Darri Ólafsson og Gísli Örn Garðarsson léku aðalhlutverk hennar. Síðari myndin, Foreldrar kom út árið eftir. Edda Arnljótsdóttir, Reine Brynjólfsson og Nína Dögg Filippusdóttir skörtuðu aðalhlutverkum, lítið fór fyrir tónlist í henni eins og þeirri fyrri en Pétur Ben annaðist hana sem og tónlistina í fyrri myndinni.

Árið 2007 var Astrópía í leikstjórn Gunnar B. Guðmundssonar frumsýnd, þar voru þau Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Jörundur Ragnarsson og Snorri Engilbertsson í aðalhlutverkum. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson hélt utan um tónlistina en platan hlaut fremur slaka dóma í Morgunblaðinu en þokkalega í Fréttablaðinu.

Duggholufólkið (2007) var í leikstjórn Ara Kristinssonar en Bergþór Þorvaldsson, Árni Beinteinn Árnason og Þórdís Hulda Árnadóttir léku helstu hlutverk en tónlist er ekki áberandi, kom a.m.k. ekki út.

Um haustið 2007 var kvikmynd Guðnýjar Halldórsdóttur, Veðramót frumsýnd. Aðalleikarar hennar voru Jörundur Ragnarsson, Hilmir Snær Guðnason, Atli Rafn Sigurðarson og Tinna Hrafnsdóttir. Ragnhildur Gísladóttir (og hljómsveitin Shady) sá um tónlist myndarinnar, sem var þó ekki gefin út utan þess að lag úr henni rataði á plötu Dísu, dóttur Ragnhildar.

Heimildamyndin Heima í leikstjórn Dean Deblois var sýnd 2007 en hún fjallar um hljómsveitina Sigur rós og ferðalag hennar um landið. Tvöföld plata kom út í tengslum við gerð myndarinnar, Hvarf/Heima, sem fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Snemma árs 2008 var myndin Brúðguminn eftir Baltasar Kormák frumsýnd. Aðalleikarar hennar voru Hilmir Snær Guðnason, Ólafur Darri Ólafsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Þröstur Leó Gunnasson. Sigurður Bjóla og Jón Ólafsson önnuðust tónlistina í myndinni en engin plata kom út.

2008 var heimildamynd um Jórunni Viðar tónskáld gerð en hún ber nafnið Orðið tónlist: Jórunn Viðar. Ari Alexander Ergis Magnússon var leikstjóri hennar og uppistaðan í henni var að sjálfsögðu tónlist Jórunnar en hún kom þó ekki út á plötu tengt myndinni.

Reykjavík – Rotterdam (2008) var í leikstjórn Óskars Jónassonar en Baltasar Kormákur og Ingvar E. Sigurðsson voru í helstu hlutverkum. Barði Jóhannsson og Eberg (Einar Tönsberg) sáu um tónlistina í myndinni en hún hlaut Edduverðlaunin þetta árið. Líklega kom hún þó ekki út á plötu.

Sama haust, 2008, var heimildamynd Arnars Jónassonar, Rafmögnuð Reykjavík, frumsýnd en hún fjallar um raftónlistarmenn á Íslandi. Myndin er full af tónlist en engin plata kom út.

Síðla árs (2008) var mynd um þær stöllur, Skoppu og Skrítlu, frumsýnd en hún hét einfaldlega Skoppa og Skrítla í bíó. Linda Ásgeirsdóttir og Hrefna Hallgrímsdóttir eru þar allt í öllu en Hallur Ingólfsson sá um tónlistina, sem kom einnig út að einhverju leyti á plötu þeirra Skoppu og Skrítlu.

Heimildamyndin Sólskinsdrengurinn var frumsýnd í bíóhúsum snemma árs 2009 og var í leikstjórn Friðriks Þórs Friðrikssonar. Tónlist myndarinnar var í höndum Bjarkar og hljómsveitarinnar Sigur rósar. Hún kom ekki út á plötu.

Kvikmyndin Jóhannes í leikstjórn Þorsteins Gunnars Bjarnasonar, var frumsýnd haustið 2009 og skartar Þórhalli (Ladda) Sigurðssyni í aðalhlutverki. Tónlistin var í höndum Kristjáns Viðars Haraldssonar (Greifarnir), titillag myndarinnar naut nokkurra vinsælda en tónlistin kom þó ekki út á plötu.

Heimildamyndin Draumalandið (2009) eftir Andra Snæ Magnason og Þorfinn Guðnason er byggð á bók þess fyrrnefnda. Valgeir Sigurðsson gerði tónlistina við myndina og kom hún út á samnefndri plötu. Hún fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Bragi Þór Hinriksson leikstýrði fjölskyldumyndinni Algjör Sveppi og leitin að Villa en þeir Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) og Vilhelm Anton Jónsson (200.000 naglbítar) léku aðalhlutverk hennar. Arnar Helgi Aðalsteinsson og Kjartan F. Ólafsson önnuðust tónlistina en hún var ekki gefin út.

Mynd Hilmars Oddssonar, Desember, með þau Tómas Lemarquis og Lovís Elísabetu Sigrúnardóttir (Lay Low) í titilhlutverkum var frumsýnd síðla hausts 2009. Tónlistin var í höndum Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar en kom á plötuformi.

Margar myndir eru hér sjálfsagt óupptaldar, ýmist vegna upplýsingaleysis eða að erlendir aðilar önnuðust tónlistina og eru þær því ekki til umfjöllunar hér.

Hilmar Örn Hilmarsson er án efa sá tónlistarmaður sem hefur komið að flestum kvikmyndum hérlendis, en auk ofangreindra mynda hefur hann unnið við fjölmargar erlendar myndir og það sama má segja um Jóhann Jóhannsson, Barða Jóhannsson og Dagur Kári Pétursson (Slowblow), svo dæmi séu tekin.
Einnig eru fjölmargar sjónvarpsmyndir og –þættir sem hér eru ekki til umfjöllunar sem hafa að geyma tónlist, t.a.m. hefur Hallur Ingólfsson mikið unnið við slíka tónlist.

Nokkrir Íslendingar hafa aukinheldur kvikmyndatónlist að atvinnu erlendis og er þáttur þeirra því mun viðameiri en umfjöllun hér að ofan kann að gefa til kynna, t.a.m. hafa þeir Veigar Margeirsson og Atli Örvarsson numið og starfað að mestu leyti í Bandaríkjunum en hafa ekki verið til umfjöllunar hér að ofan. Það sama má segja um Þóri Baldursson sem vann við fjölmargar myndir erlendis á áttunda og níunda áratugnum. Enn er ónefndur Ólafur Gaukur Þórhallsson sem nam kvikmyndatónlist í Bandaríkjunum en starfaði lítt við hana.

Að lokum má hér nefna að hérlendis eru starfandi ýmsir tónlistarmenn og hljómsveitir sem hafa tekið að sér einstaka kvikmyndatónlistarverkefni samhliða annarri tónlistarsköpun, bæði innlendis og erlendis, allt frá einstöku lagi til heillar hljóðrásar myndar. Það er því eðlilegt að þeir tónlistarmenn „týnist“ í slíkri umfjöllun þegar e.t.v. er aðeins um eitt lag að ræða í erlendri mynd, jafnvel þótt hún teljist stórmynd. Þetta á t.a.m. við Quarashi, Sigur rós og einnig minni spámenn eins og D.U.S.T.

Hér verður hægt að sjá lista yfir plötur sem hafa að geyma tónlist úr íslenskum kvikmyndum.